Maguire á leiðinni á Old Trafford

Harry Maguire.
Harry Maguire. AFP

Allt bendir til þess að Harry Maguire, miðvörður enska landsliðsins í knattspyrnu, sé á förum frá Leicester til Manchester United en enskir fjölmiðlar hafa eftir heimildum að félögin séu  búin að ná samkomulagi um vistaskipti hans.

Bæði Independent og Sky Sports segja í kvöld að heildarverðið á Maguire verði 80 milljónir punda og hann verði þar með dýrasti varnarmaður heims. Af þeirri upphæð séu væntanlega 10 milljónir punda bundnar við leikjafjölda og árangur með Manchester United.

Maguire tilkynnti Leicester í síðustu viku að hann vildi fara frá félaginu en forráðamenn Leicester höfðu fram að því hafnað öllum málaleitunum um sölu á honum. Í framhaldi af því var ákveðið að standa ekki í vegi miðvarðarins, svo framarlega sem komið væri til móts við kröfur Leicester.

Maguire er 26 ára gamall og kom til Leicester frá Hull City árið 2017 en er uppalinn hjá Sheffield United og lék þar til 2014. Hann hefur spilað 69 úrvalsdeildarleiki með Leicester og skorað í þeim fimm mörk, og er búinn að spila 20 landsleiki fyrir Englands hönd eftir að hafa komið fyrst inn í landsliðið árið 2017. Fyrsta og eina mark hans fyrir landsliðið til þessa skoraði hann gegn Svíum í 2:0 sigri í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Rússlandi síðasta sumar.

mbl.is