Van Dijk dreymir um að verða bestur

Virgil van Dijk með bikarinn eftir sigurinn í Meistaradeildinni í …
Virgil van Dijk með bikarinn eftir sigurinn í Meistaradeildinni í vor. AFP

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, segir að það yrði sannarlega draumur að rætast að fá Ballon d‘Or verðlaunin sem besti leikmaður heims. Það sé hins vegar eina markmiðið að vinna titla með Liverpool.

Van Dijk, sem Liverpool gerði að dýrasta miðverði heims eftir kaup frá Southampton, vann Meistaradeildina með liðinu í vor og komst nálægt því að vinna enska meistaratitilinn. Hann þykir nú líklegur til þess að verða útnefndur bestur í heimi árið 2019. Varnarmaður hefur ekki verið útnefndur bestur síðan Fabio Cannavaro árið 2006.

„Fyrst fólk er að tala um þetta, þá er ekki hægt að neita því að maður fylgist með. En þetta er ekki eitthvað sem ég get haft áhrif á. Það eina sem ég get gert er að vera í standi og spila eins vel og ég get. Að fá viðurkenningu á við þessa væri draumur að rætast, en ef það gerist ekki þá held ég bara áfram og reyni að bæta mig enn frekar,“ sagði van Dijk við Sky.

Hann segir þó að hann einbeiti sér meira að því sem hann geti haft áhrif á og þar sé Liverpool-liðið í forgrunni.

„Það er eitthvað sem við getum unnið saman með og er stærra markmið, að vinna titla með félaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert