Liverpool: Erfitt að gera betur

Jordan Henderson fyrirliði Liverpool lyftir Evrópubikarnum eftir sigurinn á Tottenham …
Jordan Henderson fyrirliði Liverpool lyftir Evrópubikarnum eftir sigurinn á Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor. AFP

Það verður erfitt fyrir Liverpool að gera betur á komandi keppnistímabili en því síðasta. Liverpool fékk 97 stig í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta 2018-19 og tapaði aðeins einum leik af 38.

Eins ótrúlegt og það kann að virðast dugði þessi magnaði árangur aðeins til silfurverðlauna því Liverpool fékk einu stigi minna en Manchester City í gríðarlega tvísýnu einvígi liðanna um meistaratitilinn þar sem þau voru í algjörum sérflokki.

Bið Liverpool eftir titlinum lengdist því um enn eitt árið því þótt félagið hafi um tíma verið það sigursælasta með 18 meistaratitla þá vannst sá síðasti fyrir 29 árum, árið sem fyrirliðinn Jordan Henderson fæddist.

Þetta hefur Liverpool þó bætt sér upp með tveimur Evrópumeistaratitlum, ævintýrinu í Istanbúl 2005 og svo sigrinum síðasta vor þar sem liðið vann Tottenham í úrslitaleik en steig hins vegar stóra skrefið með sýningunni gegn Barcelona þar sem Liverpool vann 4:0 eftir að hafa tapað fyrri leiknum 3:0 á Camp Nou.

Liverpool var stofnað árið 1892, hefur leikið á Anfield frá fyrsta ári og í deildakeppninni frá 1893. Fyrsta meistaratitilinn vann félagið árið 1901 en gullna tímabilið í sögu félagsins er árin 1973 til 1990 þegar það varð ellefu sinnum enskur meistari og fjórum sinnum Evrópumeistari.

Roberto Firmino, Mohamed Salah og Sadio Mané mynda magnaða sóknarþrennu …
Roberto Firmino, Mohamed Salah og Sadio Mané mynda magnaða sóknarþrennu hjá Liverpool. AFP


Erfiðasti tíminn í sögu Liverpool er árin 1954 til 1962 þegar liðið lék í næstefstu deild, missti ár eftir ár naumlega af því að komast aftur upp en þegar það hafðist loksins krækti það í tvo meistaratitla á þremur árum, 1964 til 1966. Haustið 1964 varð Liverpool einmitt fyrsti mótherji íslensks liðs í Evrópukeppni, KR, en það voru jafnframt fyrstu Evrópuleikir beggja félaganna eins og minnst hefur verið síðar. Liverpool vann 5:0 á Laugardalsvellinum og 6:1 á Anfield.

Jürgen Klopp, sá vinsæli knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekkert gert til að styrkja liðið í sumar. Nokkrar gagnrýnisraddir hafa heyrst, sumir stuðningsmenn hafa greinilega áhyggjur af því að liðið muni þar af leiðandi ekki ná að fylgja eftir árangri síðasta tímabils, en Þjóðverjinn er harður á því að hann sé með leikmannahópinn sem til þarf og öll framfaraskref sem liðið taki eigi að nást með því að bæta enn frekar þá sem þegar eru til staðar. Tveir kornungir piltar og varamarkvörður eru þeir einu sem hafa bæst í hópinn. En hver veðjar gegn liði sem er með Salah, Mané, Firmino og Origi í fremstu víglínu, góða breidd á miðjunni og hollenska tröllið Virgil van Dijk í vörninni?

Jürgen Klopp hefur sett mikinn svip á enska fótboltann síðustu …
Jürgen Klopp hefur sett mikinn svip á enska fótboltann síðustu ár en hann tók við Liverpool haustið 2015. Klopp hefur verið dyggur sínum félögum því hann var hjá Mainz frá 1990 til 2008, síðustu átta árin sem stjóri, og stýrði svo Dortmund í sjö ár áður en hann kom til Englands. AFP


Knattspyrnustjóri:
Jürgen Klopp (Þýskalandi) frá 8. október 2015.
Lokastaðan 2018-19: 2. sæti og Evrópumeistari.
Heimavöllur: Anfield, Liverpool, 53.394 áhorfendur.
Enskur meistari (18): 1901, 1906, 1922, 1923, 1947, 1964, 1966, 1973, 1976, 1977, 1979, 1980, 1982, 1983, 1984, 1986, 1988, 1990.
Bikarmeistari: (7): 1965, 1974, 1986, 1989, 1992, 2001, 2006.
Deildabikarmeistari (8): 1981, 1982, 1983, 1984, 1995, 2001, 2003, 2012.
Evrópumeistari (6): 1977, 1978, 1981, 1984, 2005, 2019.
UEFA-meistari (3): 1973, 1976, 2001.
Íslenskir leikmenn: Haukur Ingi Guðnason (1998-2000).

Komnir:
  5.8. Adrián frá West Ham
28.7. Harvey Elliott frá Fulham
  1.7. Sepp van den Berg frá Zwolle (Hollandi)

Farnir:
  8.8. Ovie Ejaria til Reading (lán - var í láni hjá Reading)
  7.8. Nathaniel Phillips til Stuttgart (Þýskalandi) (lán)
  6.8. Harry Wilson til Bournemouth (lán - var í láni hjá Derby)
  5.8. Simon Mignolet til Club Brugge (Belgíu)
30.7. Ben Woodburn til Oxford United (lán)
  9.7. Alberto Moreno til Villarreal (Spáni)
  1.7. Danny Ings til Southampton (var í láni hjá Southampton)
  1.7. Marko Grujic til Hertha (Þýskalandi) (lán - var í láni hjá Herthu)
  1.7. Rafael Camacho til Sporting Lissabon (Portúgal)
18.6. Sheyi Ojo til Rangers (Skotlandi) (lán - var í láni hjá Reims)
Óvíst: Daniel Sturridge

Markverðir:
  1 Alisson Becker
13 Adrián
62 Caoimhin Kelleher

Varnarmenn:
  2 Nathaniel Clyne
  4 Virgil van Dijk
  6 Dejan Lovren
12 Joe Gomez
26 Andy Robertson
32 Joel Matip
51 Ki-Jana Hoever
66 Trent Alexander-Arnold
72 Sepp van den Berg

Miðjumenn:
  3 Fabinho
  5 Georginio Wijnaldum
  7 James Milner
  8 Naby Keita
14 Jordan Henderson
15 Alex Oxlade-Chamberlain
20 Adam Lallana
23 Xherdan Shaqiri
40 Ryan Kent
48 Curtis Jones
67 Harvey Elliott
68 Pedro Chirivella

Sóknarmenn:
  9 Roberto Firmino
10 Sadio Mané 
11 Mohamed Salah
24 Rhian Brewster
27 Divock Origi

Þetta er tíunda greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert