Manchester United: Hægfara uppbygging?

LIð Manchester United fyrir leik gegn Inter Mílanó á dögunum.
LIð Manchester United fyrir leik gegn Inter Mílanó á dögunum. AFP

Manchester United hefur oftast allra liða orðið Englandsmeistari í knattspyrnu eða tuttugu sinnum. Þar að auki hefur liðið sextán sinnum hafnað í 2. sæti. Nýtur liðið mikilla vinsælda langt út fyrir strendur Bretlands. 

Síðast varð liðið meistari árið 2013 og var þá undir stjórn Sir Alex Fergusons. Hann lét af störfum þá um sumarið og síðan þá hefur liðið ekki gert alvöru atlögu að efsta sætinu. Liðið hefur þó fagnað sigri í öðrum keppnum frá því Ferguson hætti eins og ensku bikarkeppninni og Evrópudeildinni.

Manchester United var stofnað árið 1878 sem Newton Heath og fékk sæti í deildakeppninni árið 1892. Nafnið Manchester United var tekið upp árið 1902 eftir að fjórir kaupsýslumenn í Manchester höfðu bjargað félaginu frá gjaldþroti.

Manchester United hafnaði í 6. sæti á síðustu leiktíð og var þrjátíu og tveimur stigum á eftir Manchester City. Nokkuð sem erfitt er fyrir hörðustu stuðningsmenn liðsins að kyngja. Portúgalinn José Mourinho sagði skilið við liðið á síðasta tímabili og Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær tók við. 

Breytingar hafa orðið á leikmannahópi United í sumar en einnig er athyglisvert að þegar tímabilið er að bresta á eru enn alls kyns vangaveltur um hverjir gætu verið til sölu og hverjir gætu verið á leið til félagsins. 

Það sem er fast í hendi er að enski landsliðsmaðurinn Harry Maguire var keyptur frá Leicester City og Aaron Wan-Bissaka frá Crystal Palace. Af þessu má ráða að Solskjær þótti aðkallandi að styrkja vörnina og eyddi til þess miklum fjármunum. Ander Herrera fór á hinn bóginn til PSG og fráfarandi fyrirliði Antonio Valencia til Ekvador.

Í stað Valencia verður Ashley Young fyrirliði liðsins. Þegar hann leikur ekki má gera ráð fyrir að markvörðurinn David De Gea muni bera fyrirliðabandið. 

Solskjær hefur talað um hægfara uppbyggingu liðsins. Hann sagði hreinskilnislega á síðasta tímabili að United væri langt á eftir bestu liðunum að getu. Fyrsta verkefni væri einfaldlega að þokast nær þeim bestu. Hann hefur nú haft nokkra mánuði til að átta sig á hlutunum og nú mun pressan aukast. Ekki er víst að öllum þyki það vera hægfara uppbygging að greiða sem talið er vera 130 milljónir punda fyrir tvo leikmenn. 

Mikið mun mæða á spænska markverðinum David de Gea eins …
Mikið mun mæða á spænska markverðinum David de Gea eins og undanfarin ár. Hann þarf að sýna sínar bestu hliðar ef United á að blanda sér í toppbaráttuna. AFP


Norðmaðurinn gæti verið í þeirri stöðu í vetur að vera með leikmenn í hópnum sem hann hefði frekar kosið að selja og fá inn fjármagn. Miðherjinn Romelu Lukaku var til sölu og var seldur, en það gerðist ekki fyrr en fyrr í dag, og reikna má með því að Marcus Rashford verði aðal sóknarmaður liðsins. Alexis Sánchez mun einnig vera falur en hann meiddist í Copa America í sumar og missti af undirbúningi United fyrir leiktíðina. Á Old Trafford hljóta menn að velta því fyrir sér hvers vegna leikmaður nær sér ekki á strik hjá United sem var einn allra hættulegasti maður deildarinnar þegar hann var hjá Arsenal. 

Endalaust hefur verið rætt og ritað um Paul Pogba en Solskjær hefur ekki talað um annað en að hann sé ánægður með Frakkann. Þá er óvíst um framtíð nokkurra varnarmanna liðsins eftir innkaup sumarsins. 

Þá má því velta því fyrir sér hversu snemma á tímabilinu komin verður almennileg mynd á United-liðið og hvort eða hversu mikið leikmenn eins og Sánchez og Smalling verði nýttir fari svo að þeir verði enn hjá félaginu.

Ole Gunnar Solskjær tók við Manchester United í desember 2018 …
Ole Gunnar Solskjær tók við Manchester United í desember 2018 og samdi síðan í mars 2019 til þriggja ára. Hann lék með United 1996 til 2007 og þjálfaði Molde 2011 til 2018 að undanskildu einu ári sem knattspyrnustjóri Cardiff. AFP


Knattspyrnustjóri:
Ole Gunnar Solskjær (Noregi) frá 19. des. 2018.
Lokastaðan 2018-19: 6. sæti.
Heimavöllur: Old Trafford, Manchester, 74.879 áhorfendur.
Enskur meistari (20): 1908, 1911, 1952, 1956, 1957, 1965, 1967, 1993, 1994, 1996, 1997, 1999, 2000, 2001, 2003, 2007, 2008, 2009, 2011, 2013.
Bikarmeistari (12): 1909, 1948, 1963, 1977, 1983, 1985, 1990, 1994, 1996, 1999, 2004, 2016.
Deildabikarmeistari (5): 1992, 2006, 2009, 2010, 2017.
Evrópumeistari (3): 1968, 1999, 2008.
Evrópumeistari bikarhafa (1): 1991.
Evrópudeildarmeistari (1): 2017.
Íslenskir leikmenn: Engir.

Komnir:
  5.8. Harry Maguire frá Leicester
  1.7. Axel Tuanzebe frá Aston Villa (úr láni)
28.6. Aaron Wan-Bissaka frá Crystal Palace
12.6. Daniel James frá Swansea

Farnir:
8.8. Romelu Lukaku til Inter Mílanó (Ítalíu)
4.7. Ander Herrera til París SG (Frakklandi)
4.7. James Wilson til Aberdeen (Skotlandi) (var í láni hjá Aberdeen)
1.7. Antonio Valencia til LDU Quito (Ekvador)

Markverðir:
  1 David de Gea
13 Lee Grant
22 Sergio Romero
40 Joel Pereira

Varnarmenn:
  2 Victor Lindelöf
  3 Eric Bailly
  4 Phil Jones
  5 Harry Maguire
12 Chris Smalling
16 Marcos Rojo
18 Ashley Young
20 Diogo Dalot
23 Luke Shaw
24 Tim Fosu-Mensah
29 Aaron Wan-Bissaka
36 Matteo Darmian
38 Axel Tuanzebe

Miðjumenn:
  6 Paul Pogba
  8 Juan Mata
14 Jesse Lingard
15 Andreas Pereira
17 Fred
21 Daniel James
31 Nemanja Matic
39 Scott McTominay

Sóknarmenn:
  7 Alexis Sánchez
10 Marcus Rashford
11 Anthony Martial

Þetta er tólfta greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert