Norwich: Finninn þarf að skora

Finnski landsliðsframherjinn Teemu Pukki skoraði 29 mörk fyrir Norwich síðasta …
Finnski landsliðsframherjinn Teemu Pukki skoraði 29 mörk fyrir Norwich síðasta vetur og var kjörinn besti leikmaður ensku B-deildarinnar. AFP

Nýliðum er sjaldan spáð góðu gengi á fyrsta ári í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og þótt Norwich City hafi unnið B-deildina á nokkuð sannfærandi hátt síðasta vetur virðast flestir gera ráð fyrir því að „Kanarífuglarnir“ eigi afar erfitt tímabil fyrir höndum.

Þeir fá sannkallaða eldskírn því fyrsti leikur liðsins er upphafsleikur úrvalsdeildarinnar 2019-20 gegn Evrópumeisturum Liverpool á Anfield annað kvöld.

Þjóðverjinn Daniel Farke er að hefja sitt þriðja tímabil sem knattspyrnustjóri Norwich en hann varð við ráðninguna vorið 2017 fyrsti erlendi stjórinn í 115 ára sögu félagsins. Hann sló ekki sérstaklega í gegn á fyrsta vetri en á síðasta tímabili var lið Norwich afar sannfærandi og ljóst var nokkrum vikum fyrir lok þess að liðið yrði aftur á meðal þeirra bestu eftir þriggja ára fjarveru.

Ekki er hægt að segja að Norwich státi af þekktum nöfnum í sínum leikmannahópi. Finnski framherjinn Teemu Pukki skoraði 29 mörk síðasta vetur og var valinn leikmaður ársins í B-deildinni. Hann lék áður með Brøndby í Danmörku, Celtic í Skotlandi og Schalke í Þýskalandi, ásamt því að vera í röðum Sevilla á Spáni. Norwich þarf á mörkum frá honum að halda í vetur. Þá bættist framherjinn Josip Drmic í hópinn í sumar en hann hefur gert tíu mörk í 32 landsleikjum fyrir Sviss.

Markið ver Hollendingurinn Tim Krul, sem lék lengi með Newcastle og þá vonast Norwich-menn eftir því að kamerúnski miðvörðurinn Ibrahim Amadou styrki liðið en hann er kominn sem lánsmaður frá Sevilla.

Norwich City var stofnað árið 1902 og kom inn í deildakeppnina árið 1920. Lítið fór fyrir félaginu fram eftir 20. öldinni, var í fimm ár í B-deildinni skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina, en 1959 komst það í sviðsljósið með því að komast í undanúrslit ensku bikarkeppninnar, sem C-deildarlið, eftir að hafa slegið út stórveldin Tottenham og Manchester United.

Ári síðar vann Norwich sér sæti í B-deildinni og vann deildabikarinn árið 1962. Norwich komst í fyrsta skipti í efstu deild árið 1972 og hefur verið þar af og til síðan. Besta tímabilið í sögunni er 1992-'93, fyrsta árið eftir stofnun úrvalsdeildar, þegar Norwich barðist óvænt við Manchester United og Aston Villa um meistaratitilinn en hafnaði að lokum í þriðja sæti. Á þessari öld hefur Norwich tvívegis unnið B-deildina, 2004 og 2019, og fór líka upp árin 2011 og 2015, en lék samt í C-deildinni veturinn 2009-2010 og vann hana. Besti árangur liðsins í úrvalsdeildinni frá 1993 er 11. sætið árið 2013.

Tveir ungir Íslendingar leika með unglingaliði Norwich, þeir Atli Barkarson og Ísak Snær Þorvaldsson.

Daniel Farke er 42 ára Þjóðverji sem tók við liði …
Daniel Farke er 42 ára Þjóðverji sem tók við liði Norwich sumarið 2017. Hann þjálfaði áður varalið Borussia Dortmund og D-deildarliðið Lippstadt.


Knattspyrnustjóri
: Daniel Farke (Þýskalandi) frá 25. maí 2017.
Lokastaðan 2018-19: 1. sæti B-deildar.
Heimavöllur: Carrow Road, Norwich, 27.244 áhorfendur.
Besti árangur: 3. sæti 1993.
Deildabikarmeistari (2): 1962, 1985.
Íslenskir leikmenn: Engir.

Komnir:
  7.8. Ibrahim Amadou frá Sevilla (Spáni) (lán)
16.7. Sam Byram frá West Ham
  8.7. Rocky Bushiri frá Oostende (Belgíu - lánaður til Blackpool)
  5.7. Ralf Fährmann frá Schalke (Þýskalandi) (lán)
  1.7. Patrick Roberts frá Manchester City (lán)
24.6. Josip Drmic frá Mönchengladbach (Þýskalandi)

Farnir:
  2.8. Adam Phillips til Burnley
26.7. James Husband til Blackpool (lán)
20.7. Nélson Oliveira til AEK (Grikklandi) (var í láni hjá Reading)
  1.7. Carlton Morris til Rotherham (lán)
  1.7. Ivo Pinto til Dinamo Zagreb (Króatíu)

Markverðir:
  1 Tim Krul
21 Ralf Fährmann
33 Michael McGovern

Varnarmenn:
  2 Max Aarons
  3 Sam Byram
  4 Ben Godfrey
  5 Grant Hanley
  6 Christoph Zimmeermann
12 Jamal Lewis
15 Timm Klose
16 Philip Heise
24 Ibrahim Amadou

Miðjumenn:
  7 Patrick Roberts
  8 Mario Vrancic
10 Moritz Leitner
11 Onel Hernández
14 Todd Cantwell
17 Emi Buendía
18 Marco Stiepermann
19 Tom Trybull
23 Kenny McLean
27 Alexander Tettey
34 Louis Thompson

Sóknarmenn:
20 Josip Drmic
22 Teemu Pukki
32 Dennis Srbeny
35 Adam Idah

Þetta er fjórtánda greinin af 20 um liðin sem leika í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu keppnistímabilið 2019-2020.

mbl.is