West Ham: Framleiðsla á landsliðsmönnum

West Ham hafnaði í tíunda sæti deildarinnar síðasta vetur og …
West Ham hafnaði í tíunda sæti deildarinnar síðasta vetur og stefnir lengra á komandi tímabili. AFP

West Ham er eitt þeirra félaga sem eru með það á stefnuskránni að komast sem næst stærstu liðunum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og vonast til að geta gert atlögu að sæti í Evrópudeildinni.

Manuel Pellegrini er að hefja sitt annað tímabil með liðið en hann þurfti að víkja fyrir Pep Guardiola hjá Manchester City á sínum tíma þrátt fyrir góðan árangur og starfaði í tvö ár í Kína í millitíðinni. West Ham hóf síðasta tímabil afar illa, tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum en var komið upp í miðja deild um jól eftir nokkra sigurleiki í röð.

Liðið endaði í tíunda sætinu og til að freista þess að ná lengra hefur Pellegrini m.a. náð sér í tvo öfluga framherja. Frakkinn Sébastien Haller skoraði 19 mörk fyrir Eintracht Frankfurt á síðasta tímabili, fimm þeirra í Evrópukeppni, og Svisslendingurinn Albian Ajeti gerði 29 mörk fyrir Basel á undanförnum tveimur árum. Þá var miðjumaðurinn Pablo Fornals sem kom frá Villarreal í Evrópumeistaraliði Spánverja U21 árs í sumar.

Meðal framherja liðsins eru ennfremur þeir Javier „Chicarito“ Hernández frá Mexíkó, fyrrverandi leikmaður Manchester United, og hinn úkraínski Andriy Yarmolenko sem hefur skorað 36 mörk í 80 landsleikjum fyrir þjóð sína. Fyrirliðinn Mark Noble er akkerið á miðjunni og pólski landsliðsmarkvörðurinn Lukasz Fabianski er þrautreyndur og lék alla leiki West Ham í deildinni síðasta vetur.

Eini fastamaðurinn sem er horfinn á braut er austurríski sóknarmaðurinn Marko Arnautovic, markahæsti leikmaður liðsins í deildinni síðasta vetur, en hann virtist aldrei fyllilega sáttur hjá félaginu á tveimur árum þar og er nú kominn til Kína.

West Ham United var stofnað í austurhluta London árið 1895 undir heitinu Thames Ironworks en tók upp núverandi nafn fimm árum síðar. Félagið fékk sæti í deildakeppninni árið 1919, komst í efstu deild í fyrsta sinn 1923 og hefur frá þeim tíma samtals verið 61 tímabil í hópi þeirra bestu. Liðið hefur leikið í úrvalsdeildinni í þrettán ár af síðustu fjórtán og á þeim tíma hefur West Ham best náð sjöunda sætinu árið 2016. West Ham hafði aðsetur á Boleyn Ground (þó oftast væri talað um Upton Park) frá 1904 til 2016 þegar það flutti höfuðstöðvar sínar yfir á London Stadium, Ólympíuleikvang Breta frá árinu 2012.

Mark Noble er fyrirliði West Ham og hefur verið í …
Mark Noble er fyrirliði West Ham og hefur verið í röðum félagsins í 19 ár, eða frá þrettán ára aldri. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

West Ham varð þrisvar bikarmeistari á árunum 1964 til 1980 og varð Evrópumeistari bikarhafa árið 1965. Þá léku með liðinu þeir Bobby Moore, Geoff Hurst og Martin Peters sem allir voru í fyrsta og eina heimsmeistaraliði Englands ári síðar - Moore sem fyrirliði.

Frá þeim tíma hefur West Ham alltaf haft orð á sér sem góð uppeldisstöð fyrir enska landsliðsmenn og meðal þeirra sem hafa komið frá West Ham og leikið með enska landsliðinu eru Trevor Brooking, Tony Cottee, Paul Ince, Rio Ferdinand, Frank Lampard, Joe Cole, Michael Carrick og Glen Johnson. Flestir þeirra fóru til stærri félaga en West Ham hefur á seinni árum átt erfitt með að halda í sína allrabestu leikmenn.

Besta árangri sínum í deildakeppninni náði West Ham árið 1986 þegar liðið hafnaði í þriðja sæti, aðeins fjórum og tveimur stigum á eftir Liverpool og Everton en átta stigum á undan Manchester United sem endaði í fjórða sæti.

Íslendingar komu við sögu hjá West Ham þegar Björgólfur Guðmundsson og Eggert Magnússon keyptu félagið árið 2006. Eggert var stjórnarformaður þess í rúmlega tólf mánuði en Björgólfur keypti þá hans hlut og fór fyrir félaginu í tvö ár til viðbótar.

Manuel Pellegrini er 65 ára gamall Sílebúi sem tók við …
Manuel Pellegrini er 65 ára gamall Sílebúi sem tók við West Ham vorið 2018. Hann stýrði áður m.a. Manchester City, Málaga, Real Madrid, Villarreal og River Plate. AFP


Knattspyrnustjóri
: Manuel Pellegrini (Síle) frá 22. maí 2018.
Lokastaðan 2018-19: 10. sæti.
Heimavöllur: London Stadium, London, 60 þúsund áhorfendur.
Besti árangur: 3. sæti 1986.
Bikarmeistari (3): 1964, 1975, 1980.
Evrópubikarmeistari (1): 1965.
Íslenskir leikmenn: Hólmar Örn Eyjólfsson (2008-2011).

Komnir:
  8.8. Albian Ajeti frá Basel (Sviss)
  6.8. Goncalo Cardoso frá Boavista (Portúgal)
17.7. Sébastien Haller frá Eintracht Frankfurt (Þýskalandi)
  1.7. Roberto frá Espanyol (Spáni)
14.6. Pablo Fornals frá Villarreal (Spáni)
  3.6. David Martin frá Millwall

Farnir:
  8.8. Andy Carroll til Newcastle
  8.8. Grady Dingana til WBA (lán)
  5.8. Adrián til Liverpool
  2.8. Reece Oxford til Augsburg (Þýskalandi) (var í láni hjá Augsburg)
24.7. Pedro Obiang til Sassuolo (Ítalíu)
16.7. Sam Byram til Norwich
  8.7. Marko Arnautovic til Shanghai SIPG (Kína)
  5.7. Samir Nasri til Anderlecht (Belgíu)
  3.6. Lucas Pérez til Alavés (Spáni)
  1.6. Edimilson Fernandes til Mainz (Þýskalandi) (var í láni hjá Fiorentina)

Markverðir:
  1 Lukasz Fabianski
13 Roberto
25 David Martin

Varnarmenn:
  2 Winston Reid
  3 Aaron Cresswell
  4 Fabián Balbuena
  5 Pabol Zabaleta
20 Goncalo Cardoso
21 Angelo Ogbonna
23 Issa Diop
24 Ryan Fredericks
26 Arthur Masuaku

Miðjumenn:
  8 Felipe Anderson
10 Manuel Lanzini
11 Robert Snodgrass
15 Carlos Sánchez
16 Mark Noble
18 Pablo Fornals
19 Jack Wilshere
30 Michail Antonio
41 Declan Rice

Sóknarmenn:
  7 Andriy Yarmolenko
  9 Javier Hernández
22 Sébastien Haller
27 Albian Ajeti
32 Xande Silva

Þetta er nítjánda grein­in af 20 um liðin sem leika í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu keppn­is­tíma­bilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert