Jóhann rak smiðshöggið á sigur Burnley

Jóhann Berg Guðmundsson rak smiðshöggið á sigur Burnley sem lagði Southampton að velli, 3:0, í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en þrír aðrir leikir fóru fram á sama tíma. Jóhann Berg spilaði allan leik Burnley.

Eftir markalausan fyrri hálfleik braut sóknarmaðurinn margreyndi Ashley Barnes ísinn fyrir heimamenn á 63. mínútu og tvöfaldaði hann svo forystu Burnley sjö mínútum síðar. Stundarfjórðungi fyrir leikslok skoraði Jóhann Berg svo sitt sjöunda úrvalsdeildarmark með föstu skoti á nærstöngina innan vítateigs. Frábær byrjun hjá Jóhanni og félögum.

Verr gekk hjá Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton sem máttu þola markalaust jafntefli á Selhurst Park þar sem þeir heimsóttu Crystal Palace. Gylfi fékk gott færi til að skora strax á annarri mínútu og voru gestirnir líklegri til afreka framan af leik. Everton-menn urðu svo að leika manni færri síðasta stundarfjórðunginn er Morgan Schneiderlin fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt en skömmu síðar var Gylfi tekinn af velli, á 79. mínútu.

Þá sóttu nýliðar Sheffield United dýrmætt stig til Bournemouth er sóknarmaðurinn Billy Sharp jafnaði metin á 88. mínútu í 1:1-jafntefli en Chris Mepham kom heimamönnum yfir eftir klukkutíma leik.

Brighton vann svo frækinn útisigur gegn Watford, 3:0, en Florin Andone og Neal Maupay skoruðu fyrir gestina eftir að Abdoulaye Doucouré skoraði sjálfsmark fyrir heimamenn snemma leiks.

Úrslitin
Bournemouth - Sheffield United 1:1
Burnley - Southampton 3:0
Crystal Palace - Everton 0:0
Watford - Brighton 0:3

Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 15:53 Leik lokið Markalaust á Selhurst Park. Jóhann Berg skoraði þriðja og síðasta mark Burnley í frábærum sigri. Bournemouth og Sheffield United skildu jöfn, 1:1, og Watford tapaði illa á heimavelli, 3:0, gegn Brighton.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert