Wolves: Heilagur andi á hliðarlínunni

Conor Coady er fyrirliði Úlfanna og hefur leikið í vörn …
Conor Coady er fyrirliði Úlfanna og hefur leikið í vörn þeirra undanfarin fjögur ár. AFP

Wolverhampton Wanderers, oftast kallað Wolves, var stofnað sem St. Luke's F.C. árið 1877. Liðið hefur spilað á Molineux-vellinum síðan 1879 og var eitt af tólf stofnliðum ensku deilda­keppn­inn­ar í knattspyrnu árið 1888. 

Wolves hefur síðustu ár verið sannkallað jójó-lið og farið upp og niður um deildir. Árið 2014 var liðið í C-deildinni, en síðan hafa bjartari tímar tekið við. Árið 2016 keyptu auðugir kínverskir kaupsýslumenn félagið og hafa þeir dælt í það peningum til að koma því í fremstu röð. 

Wolves var nýliði í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og hafnaði þá í sjöunda sæti með 57 stig og náði Evrópusæti, í fyrsta skipti í 39 ár. Wolves náði góðum árangri gegn toppliðunum og vann m.a Manchester United, Arsenal og Chelsea. Þá gerði liðið einnig jafntefli við Manchester City. 

Hausverkurinn voru leikirnir gegn neðstu liðunum og tókst Wolves að tapa tvisvar á móti Huddersfield, sem vann aðeins þrjá leiki allt tímabilið. Það hentar Wolves gríðarlega vel að andstæðingurinn sé meira með boltann og að nýta skyndisóknir, enda fremstu menn ógnarhraðir. 

Nái Wolves áfram að stríða bestu liðum deildarinnar og læra að stjórna leikjum betur gegn liðunum fyrir neðan sig eru allir vegir færir. Wolves hefur bætt Patrick Cutrone frá AC Milan og Jesús Vellejo frá Real Madríd, annars er nánast um sama lið og að ræða og á síðustu leiktíð. Menn þekkjast býsna vel og það er jákvætt. 

Rui Patricio er landsliðsmarkvörður Portúgals og Evrópumeistari frá 2016.
Rui Patricio er landsliðsmarkvörður Portúgals og Evrópumeistari frá 2016. AFP

Portúgalinn Nuno Espírito Santo (Espírito Santo þýðir Heilagur andi) kom Wolves upp á sinni fyrstu leiktíð með liðið og náði svo eftirtektarverðum árangri á sinni fyrstu leiktíð sem stjóri í ensku úrvalsdeildinni. Nú eru hann og leikmennirnir árinu eldri og þekkja deildina betur. Stefnan verður því sett enn hærra. Átta samlandar þjálfarans eru í leikmannahópi Úlfanna og þeirra þekktastir markvörðurinn Rui Patrício og miðjumaðurinn Joao Moutinho. Þá hefur framherjinn Raúl Jiménez skorað 22 mörk í 77 landsleikjum fyrir Mexíkó.

Wolves hefur þrisvar orðið enskur meistari. Allir titlarnir komu á gullaldarárum félagsins 1954 til 1959 þegar Úlfarnir undir stjórn Stan Cullis þóttu eitt besta lið Evrópu. Þá hefur liðið fjórum sinnum orðið enskur bikarmeistari. Einu sinni hefur liðið komist í úrslit UEFA-bikarsins, sem nú heitir Evrópudeildin og einu sinni í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa. 

Þótt Wolves sé tæplega að fara að berjast um enska meistaratitilinn, ætlar liðið sér enn stærri hluti en á síðustu leiktíð. Wolves sýndi það á síðustu leiktíð að það getur unnið hvaða lið sem er á góðum degi og með stöðuleika, gæti liðið jafnvel blandað sér í baráttuna um fjögur efstu sætin. 

Wolves hóf tímabilið á undan öðrum enskum liðum vegna þátttöku sinnar í undankeppni Evrópudeildarinnar. Þar unnu Úlfarnir örugga sigra, 2:0 og 4:1, á Crusaders frá Norður-Írlandi í 2. umferð og unnu síðan Pyunik Jerevan á útivelli í Armeníu, 4:0, í fyrri leiknum í 3. umferð. Þeir eru því næsta öruggir með sæti í umspilinu þar sem þeir mæta væntanlega Tórínó frá Ítalíu í tveimur leikjum um sæti í riðlakeppninni.

Portúgalinn Nuno Espírito Santo er að hefja sitt þriðja tímabil …
Portúgalinn Nuno Espírito Santo er að hefja sitt þriðja tímabil með Úlfana. Hann er 45 ára og stýrði liðum Porto og Valencia í eitt ár hvoru um sig en þar áður Rio Ave í tvö ár. AFP


Knattspyrnustjóri
: Nuno Espírito Santo (Portúgal) frá 31. maí 2017.
Lokastaðan 2018-19: 7. sæti.
Heimavöllur: Molineux Stadium, Wolverhampton, 32.050 áhorfendur.
Enskur meistari (3): 1954, 1958, 1959.
Bikarmeistari (4): 1893, 1908, 1949, 1960.
Deildabikarmeistari (2): 1974, 1980.
Íslenskir leikmenn: Ívar Ingimarsson (2002-2003), Jóhannes Karl Guðjónsson (2003-2004), Eggert Gunnþór Jónsson (2012-2013), Björn Bergmann Sigurðarson (2012-2016), Jón Daði Böðvarsson (2016-2017).

Komnir:
  6.8. Renat Dadashov frá Estoril (Portúgal - lánaður til Pacos de Ferreira)
30.7. Patrick Cutrone frá AC Milan (Ítalíu)
27.7. Jesús Vallejo frá Real Madrid (Spáni) (lán)
  1.7. Leander Dendoncker frá Anderlecht (Belgíu) (var í láni frá Anderlecht)

Farnir:
  2.8. Niall Ennis til Doncaster (lán)
30.7. Will Norris til Ipswich (lán)
13.7. Ivan Cavaleiro til Fulham (lán)
  3.7. Hélder Costa til Leeds (lán)
  1.7. Kortney House til Aston Villa (var í láni hjá Villa)

Markverðir:
11 Rui Patrício
21 John Ruddy

Varnarmenn:
  2 Matt Doherty
  4 Jesús Vallejo
  5 Ryan Bennett
15 Willy Boly
16 Conor Coady
19 Jonny Otto
29 Rúben Vinagre
49 Max Kilman
Roderick Miranda

Miðjumenn:
  8 Rúben Neves
17 Morgan Gibbs-White
27 Romain Saiss
28 Joao Moutinho
32 Leander Dendoncker
Bruno Jordao

Sóknarmenn:
  9 Raúl Jiménez
10 Patrick Cutrone
18 Diogo Jota
37 Adama Traoré
Léo Bonatini
Pedro Neto

Þetta er tuttugasta grein­in af 20 um liðin sem leika í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu keppn­is­tíma­bilið 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert