Markið sem gerði Beckham að stjörnu

Spyrnutækni Beckhams var rómuð.
Spyrnutækni Beckhams var rómuð. Reuters

Á fremur litlum knattspyrnuvelli í úthverfi í suðausturhluta Lundúna, Selhurst Park, má segja að einn þekktasti íþróttamaður Englendinga David Beckham hafi lagt grunninn að frægð sinni og frama fyrir rúmum tveimur áratugum.

Einkalíf hans og ýmis umsvif utan vallar síðar meir höfðu að sjálfsögðu sitt að segja, en hvað fótboltann varðar þá skaut Beckham fyrir alvöru upp á stjörnuhimininn þegar hann skaut frá miðju gegn Wimbledon í ágúst 1996.

Nú þegar fyrsta umferðin á nýju keppnistímabili í ensku úrvalsdeildinni stendur yfir er ekki úr vegi að rifja upp þessi tilþrif. 

Manchester United mætti þá Wimbledon í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 1996-1997. United hafði sigrað tvöfalt vorið áður og þá höfðu Beckham og aðrir ungir menn fengið eldskírn sína sem fastamenn í United-liðinu. Leikmennirnir geisluðu af sjálfstrausti og höfðu valtað yfir Newcastle United 4:0 í leiknum um Góðgerðaskjöldinn skömmu áður. United vann Wimbledon 3:0 í þessum fyrsta leik í deildinni og þriðja markið skoraði Beckham með óhemju nákvæmu skoti frá miðlínu vallarins.

Eins og dádýr í háu ljósunum

Uppátækið kom líklega öllum á óvart og þá kannski sérstaklega markverðinum Neil Sullivan sem þurfti að horfa á eftir boltanum sigla í netið. Hann var ekki staddur neitt sérstaklega langt frá marklínunni, þegar Beckham lét skotið ríða af, ef mið er tekið af því að boltinn var á hinum vallarhelmingnum.

Sullivan átti fínan feril í ensku knattspyrnunni og var enginn nýgræðingur í faginu. Sjálfsagt hefur hann búið sig undir að Frakkanum Eric Cantona væri trúandi til að reyna alls kyns hundakúnstir en bjóst örugglega ekki við þessu frá einum af ungu guttunum hans Fergusons. Svipurinn á andliti Sullivan þegar hann sér í hvað stefnir er ógleymanlegur. Minnir einna helst á dádýr í háu ljósunum.

Eric Harrison þjálfari unglingaliðs United á árum áður með David …
Eric Harrison þjálfari unglingaliðs United á árum áður með David Beckham, Gary Neville og Phil Neville. Ljósmynd/twitter-síða Manchester United

Vann sig inn í liðið ári áður

David Beckham var vitaskuld ekki óþekktur í knattspyrnuheiminum þegar tímabilið 1996 - 1997 hófst. Hann hafði verið í efnilegu unglingaliði sem Ferguson hafði auga á og gaf mörgum úr því liði stóra tækifærið ári áður eins og frægt varð. En stjarna var Beckham ekki þegar þarna var komið sögu.

Eins og nokkrir aðrir ungir leikmenn nýtti hann tækifærið vel tímabilið 1995 - 1996 og skoraði sjö mörk í deildinni. Öðrum ungum samherjum hafði hins vegar áður verið spáð meiri frama og má þar nefna Ryan Giggs, Keith Gillespie, Paul Scholes og Nicky Butt. Allir unnu þeir sig fyrr inn í liðið og til marks um stöðu Beckhams í goggunarröðinni þá bar hann númerið 24 á bakinu tímabilið 1995-1996.

Beckham skoraði hins vegar laglegt mark strax í fyrsta leik þess tímabils en það vakti enga sérstaka athygli þar sem United tapaði illa 3:1 fyrir Aston Villa. Í framhaldinu lét gamli Liverpool fyrirliðinn Alan Hansen, þá álitsgjafi í sjónvarpi, fræg orð falla í þættinum Match of the Day: „You don´t win anything with kids.“ Stuðningsmenn United þreyttust ekki á því að minna hann á þessa fullyrðingu.

David Beckham.
David Beckham. Reuters

Fékk treyju númer 10

Tímabilið 1996-1997 mætti Beckham hins vegar með númerið 10 á bakinu og ljóst að til meira var ætlast af honum. Kempur á borð við Denis Law og Mark Hughes höfðu leikið með 10 á bakinu fyrir félagið svo dæmi sé tekið. Beckham gat varla byrjað betur en að skora þetta eftirminnilega mark gegn Wimbledon. Sparkspekingum varð strax ljóst að um þetta mark yrði lengi rætt þó þeir hafi ekki endilega séð fyrir sér Sögustundina í Mogganum á þeim tímapunkti. Þótt nokkuð mörg ár séu liðin þá dúkka þessi tilþrif ennþá upp í alls kyns könnunum í Bretlandi um eftirminnileg íþróttaafrek. Einnig er það yfirleitt á listum yfir glæsilegustu mörk í sögu deildakeppninnar.

Að taka upp á því að reyna markskot frá miðju í fyrsta leik tímabilsins er vísbending um mikið sjálfstraust hjá svo ungum leikmanni. Beckham fylgdi markinu vel eftir og lék við hvern sinn fingur á tímabilinu. Hann skoraði mörg afar falleg mörk þar sem spyrnutækni hans kom að góðum notum. Hana hafði hann lagt mikla rækt við og sú vinna skilaði sér. Alls skoraði Beckham tólf mörk í öllum keppnum á tímabilinu. Undir lok tímabilsins var hann valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar af mótherjum sínum og United varði titilinn.

Vendipunktur að mati Beckhams

Í knattspyrnu er gjarnan sagt að mörk breyti leikjum. Eitt mark getur einnig haft mikil áhrif á feril leikmanns. Til dæmis sé það skorað í úrslitaleik eða á mikilvægum tímapunkti. Sjálfur sagði Beckham í „ævisögu“ sinni að markið gegn Wimbledon hafi vendipunktur á hans ferli:

„Ég gat auðvitað ekki gert mér grein fyrir því þá en þetta augnablik var upphafið að allri athyglinni, fjölmiðlaumfjölluninni og frægðinni. Um leið og fóturinn snerti boltann þá sparkaði ég um leið upp hurðinni að restinni að ævinni.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. desember 2016.

 

 

David Beckham á meðal áhorfenda á leik Englands og Noregs …
David Beckham á meðal áhorfenda á leik Englands og Noregs á HM kvenna í sumar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert