Pogba ýjar enn að brottför frá United

Paul Pogba og Marcus Rashford ræða málin á Old Trafford …
Paul Pogba og Marcus Rashford ræða málin á Old Trafford í dag. AFP

Orðrómar um framtíð knattspyrnumannsins Paul Pogba hafa verið á kreiki í allt sumar en hann var á sínum stað í byrjunarliði Manchester United í dag og spilaði vel er liðið hóf keppni í ensku úrvalsdeildinni með 4:0-sigri á Chelsea.

Pogba lagði upp eitt af mörkum United og þótti standa sig prýðilega á miðjunni en eftir leik gaf hann miðlinum RMC Sport viðtal og sagði enn vera spurningamerki um framtíð sína en hann sagðist vera opinn fyrir nýrri áskorun, fyrr í sumar. „Ég er alltaf góður þegar ég spila fótbolta, það er það sem ég elska að gera en það er enn þetta stóra spurningamerki um framtíðina. Tíminn mun leiða í ljós hvað gerist.“

„Ég er í Manchester og nýt þess að spila með liðsfélögum mínum. Ég vil vinna alla leiki og mun alltaf gefa allt þegar ég er á vellinum.“

Þó búið sé að loka félagsskiptaglugganum á Englandi þá standa gluggarnir opnir í öðrum stórum deildum Evrópu. Real Madrid bauð í Pogba í síðasta mánuði en því tilboði var snarlega hafnað. Spænska stórliðið gæti þó enn gert aðra tilraun í Frakkann en félagsskiptaglugginn á Spáni lokar 2. september.

mbl.is