Óvíst hvað Alisson verður lengi frá

Alisson haltrar af velli.
Alisson haltrar af velli. AFP

Brasilíski markmaðurinn Alisson mun ekki leika með Liverpool næstu vikurnar vegna meiðsla í kálfa sem hann varð fyrir gegn Norwich í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á föstudag.  

Alisson þurfti að fara af velli á 39. mínútu vegna meiðslanna og kom Spánverjinn Adrian inn í hans stað. Adrian var nýbúinn að skrifa undir samning við Liverpool, en hann lék síðast með West Ham. 

„Þetta eru kálfameiðsli og hann verður frá í einhvern tíma. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær hann jafnar sig, en þetta eru einhverjar vikur. Ég sá fréttir um sex vikur, en ég er ekki viss hvaðan það kom. Vonandi jafnar hann sig fljótt," sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool í viðtali á heimasíðu félagsins. 

Meiðsli Alisson þýða væntanlega að félagið semji við Andy Lonergan, sem æfði og spilaði með liðinu á undirbúningstímabilinu. 

mbl.is