Bað Maguire afsökunar á óviðeigandi ummælum

Harry Maguire stóð sig mjög vel í sínum fyrsta leik …
Harry Maguire stóð sig mjög vel í sínum fyrsta leik með Manchester United. AFP

Paul Merson, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur hjá Sky-sjónvarpsstöðinni, hefur beðið Harry Maguire, leikmann Manchester United, afsökunar á ummælum sínum á dögunum. 

Maguire kostaði United 80 milljónir punda frá Leicester og varð fyrir vikið dýrasti varnarmaður sögunnar. Merson skildi ekki hvers vegna United væri að eyða slíkum fjárhæðum í Maguire og kallaði það fáránlegt. 

„Maguire fyrir 80 milljónir er með því fáránlegasta. Hann stóð sig vel í þriggja manna vörn með enska landsliðinu, en þú veist af hverju stjórar fara í þriggja manna vörn. Það er þegar varnarmennirnir eru ekki nægilega góðir. Hann mun lenda í vandræðum með framherja mótherjans hjá United," sagði Merson. 

Ummæli Merson komu áður en Manchester United vann 4:0-sigur á Chelsea í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag og var Maguire valinn maður leiksins í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Merson viðurkenndi að hann hafi haft rangt fyrir sér. 

„Hann var virkilega sterkur og lék vel. Ég gagnrýndi hann of harkalega og ég hef beðið hann afsökunar. Hann er mun betri en ég sagði hann vera. Hann hefur spilað í undanúrslitaleik HM og ummælin voru óviðeigandi," sagði Merson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert