Klopp ekki nógu góður til að taka ákvörðun

Jürgen Klopp spriklaði á æfingu með Liverpool í dag.
Jürgen Klopp spriklaði á æfingu með Liverpool í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist ekki vera nægilega góður til að ákveða hvort hann leggi meiri áherslu á að verja Evrópumeistaratitilinn eða verða enskur meistari. 

Klopp varð Evrópumeistari í fyrsta skipti á síðustu leiktíð er hann stýrði Liverpool til sigurs gegn Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Liverpool var nálægt því að vinna tvöfalt, en varð að lokum að sætta sig við annað sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir harðan slag við Manchester City. 

„Ég er ekki nógu góður til að taka ákvörðun um að leggja meiri áherslu á aðra keppnina en hina,“ sagði Klopp. „Við ákváðum ekki á síðustu leiktíð að leggja meiri áherslu á Meistaradeildina og slaka á í deildinni.

Við reynum bara að vinna næsta fótboltaleik. Ég er enginn snillingur svo ég tek því sem ég fæ,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

Liverpool mætir Chelsea í Stórbikar Evrópu í Istanbúl annað kvöld. Liverpool á góðar minningar frá borginni, þar sem liðið varð Evrópumeistari árið 2005 eftir sigur á AC Milan í þessari höfuðborg Tyrklands. 

„Ég veit að borgin hefur sérstakan stað hjá stuðningsmönnum. Þetta er mjög sérstakur staður fyrir okkur alla og enginn mun gleyma þessu kvöldi,“ sagði Klopp. 

mbl.is