Man. Utd lánar Hearts markvörð

Joel Pereira hefur aðeins leikið tvo leiki með aðalliði Manchester …
Joel Pereira hefur aðeins leikið tvo leiki með aðalliði Manchester United. Ljósmynd/manutd.com

Manchester United hefur lánað skoska félaginu Hearts markvörðinn Joel Pereira og mun hann spila með Hearts út leiktíðina sem nú er að hefjast.

Pereira, sem er 23 ára Portúgali en fæddur í Sviss, var á eftir David de Gea, Sergio Romero og Lee Grant í goggunarröðinni hjá United og kaus því að fara að láni til þess að fá tækifæri til að spila. Hann hefur áður verið lánaður til Rochdale í Englandi, Belenenses og Vitoria Setubal í Portúgal, og síðast Kortrijk í Belgíu. Hann lék samtals 14 leiki með Vitoria Setubal og Kortrijk á síðustu leiktíð.

Pereira kom 19 ára gamall til United og hefur leikið tvo leiki fyrir aðallið félagsins, báða veturinn 2016-2017. Hann kom inn á fyrir Romero í bikarleik gegn Wigan og var í byrjunarliðinu gegn Crystal Palace á Old Trafford í lokaleik tímabilsins, og hélt markinu þá hreinu. Núgildandi samningur hans við United rennur út næsta sumar svo Pereira gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert