Liverpool lagði Chelsea í vítaspyrnukeppni

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool fögnuðu vel og …
Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool fögnuðu vel og innilega í leikslok. AFP

Liverpool lagði Chelsea að velli í vítaspyrnukeppni í Meistarakeppni Evrópu í knattspyrnu á Besiktas Park-vellinum í Istanbúl í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1:1 og því var gripið til framlengingar. Í framlengingunni bættu bæði lið við sitt hvoru markinu og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og á 15. mínútu slapp Mohamed Salah einn í gegn en skot hans af stuttu færu úr teignum var vel varið af Kepa í marki Chelsea. Eftir þetta vöknuðu leikmenn Chelsea og þeir tóku öll völd á vellinum skömmu síðar. Olivier Giroud slapp í gegn stuttu síðar en skot hans endaði í innkasti. Á 22. mínútu átti Pedro hörkuskot í þverslá úr þröngu færi í teignum. Liðin skiptust svo á að sækja eftir þetta þótt Chelsea-menn hafi verið ívið hættulegri fram á við. Á 36. mínútu dró til tíðinda þegar N'Golo Kanté átti frábæran sprett upp miðsvæðið. Kanté labbaði framhjá miðjumönnum Liverpool, sendi boltann á Christian Pulisic sem keyrði í átt að marki Liverpool og átti svo hárnákvæma stungusendingu inn fyrir á Giroud sem kláraði meistarlega í fjærhornið með vinstri fæti framhjá Adrián í marki Liverpool.

Pulisic minnti svo á sig á 40. mínútu þegar skot hans rétt fyrir utan teig fór í netið eftir laglegan sprett upp vinstri kantinn en Bandaríkjamaðurinn var rangstæður í aðdraganda marksins og það fékk því ekki að standa og staðan 1:0 í hálfleik. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gerði breytingu í hálfleik og tók Alex Oxlade-Chamberlain af velli og setti Roberto Firmino inn á. Sú skipting var fljót að bera árangur því strax á 47. mínútu sendi Fabinho boltann inn fyrir á Firmino sem renndi boltanum til hliðar á Sadio Mané sem skoraði í autt markið og staðan orðin 1:1.

Liverpool var sterkari aðilinn eftir þetta og fékk nokkur góð sóknarfæri til þess að bæta við öðru marki en oft á tíðum klikkaði síðasta sendingin. Báðum liðum gekk illa að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir þetta en á 74. mínútu fékk Liverpool hornspyrnu. Boltinn datt fyrir Salah í teignum sem átti skot að marki sem Kepa varði til hliðar. Frákastið hrökk til Van Dijk sem átti skot sem Kepa varði á marklínu og upp í þverslánna. Liverpool sótti meira á lokamínútum venjulegs leiktíam og Sadio Mané slapp einn í gegn á 89. mínútu en skot hans fór framhjá markinu. Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og því var gripið til framlengingar.

Strax á fimmtu mínútu framlengingarinnar átti Roberto Firmino frábæra sendingu út í teiginn á Mané sem skoraði í þverslánna og inn og staðan orðin 2:1. Fimm mínútum síðar fékk Chelsea vítaspyrna þegar Adrián tók Tammy Abrahams niður innan teigs. Jorginho steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi og staðan því 2:2 eftir fyrri hálfleik framlengingarinnar. Chelsea menn voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik framlengingarinnar og átti Mason Mount fínt skot að marki á 115. mínútu sem Adrián varði vel. Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar reyndist Tammy Abraham, framherji Chelsea, skúrkurinn þegar hann lét Adrián verja frá sér í lokaspyrnu Chelsea og Liverpool fagnaði því sigri í úrslitaleiknum í fjórða sinn í sögu félagsins.

Liverpool 7:6 Chelsea opna loka
130. mín. Tammy Abraham (Chelsea) skorar ekki úr víti 5:4 - Abraham lætur Adrián verja frá sér!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert