Skil ekki hvernig samfélagsmiðlar leyfa þetta

Tammy Abraham leyndi ekki vonbrigðum sínum eftir að hafa klúðrað …
Tammy Abraham leyndi ekki vonbrigðum sínum eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni gegn Liverpool. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að fyrirtæki sem reki samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter verði að gera betur til að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir ofsóknum á netinu.

Hinn 21 árs gamli framherji Chelsea, Tammy Abraham, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum eftir að hann klúðraði vítaspyrnunni sem tryggði Liverpool sigur á Chelsea í Ofubikar UEFA á miðvikudagskvöld. Chelsea hefur sent frá sér yfirlýsingu og fordæmt þau andstyggilegu skilaboð sem Abraham fékk send.

„Tammy er meira en miður sín. Ég fyllist viðurstyggð yfir svona svokölluðum Chelsea-stuðningsmönnum. Ég skil ekki hvernig þetta er leyft á samfélagsmiðlum. Þetta er of auðvelt. Eitthvað verður að gera,“ sagði Lampard á blaðamannafundi í dag, fyrir leikinn við Leicester á sunnudaginn.

„Ég er svo reiður fyrir hönd Tammy og reiður fyrir hönd okkar sem félags vegna þess að þetta stríðir gegn gildum félagsins. Félagið leggur mikið á sig til að vinna gegn mismunun á öllum stigum. Svona mál eru stórt skref aftur á bak í þeirri vinnu,“ sagði Lampard.

„Ég hef rætt málið við Tammy og hann er sterk persóna. Hann smitar út frá sér, er frábær ungur maður og á allan fótboltaferilinn fyrir höndum. Þetta er prófraun varðandi hans karakter, prófraun sem hann á ekki að þurfa að ganga í gegnum,“ sagði Lampard.

Frank Lampard vonast til þess að fagna sínum fyrsta sigri …
Frank Lampard vonast til þess að fagna sínum fyrsta sigri sem stjóri Chelsea á sunnudaginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert