Dramatískt jafntefli á Etihad

Lucas Moura skoraði strax eftir að hafa komið inn á.
Lucas Moura skoraði strax eftir að hafa komið inn á. AFP

Manchester City og Tottenham gerðu hádramatískt 2:2-jafntefli á Etihad vellinum í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Meistararnir virtust vera að hirða stigin þrjú með marki í uppbótartíma en markið var dæmt af þökk sé VAR.

Meistararnir voru miklu betri á löngum köflum og komust verðskuldað yfir á 20. mínútu þegar Raheem Sterling skoraði eftir frábæra fyrirgjöf Kevin de Bruyne. Érik Lamela jafnaði hins vegar metin aðeins þremur mínútum síðar með föstu skoti í vinstra hornið utan teigs.

City hélt áfram að þjarma að gestunum og komst aftur yfir á 35. mínútu með marki Sergio Agüero en aftur lagði De Bruyne það upp. Lucas Moura jafnaði svo aftur metin fyrir Tottenham eftir hornspyrnu, aðeins átta sekúndum eftir að hann kom inn af varamannabekknum á 56. mínútu.

Það var svo seint í uppbótartíma að Gabriel Jesus þrumaði boltanum í netið eftir hornspyrnu og virtist vera að tryggja City stigin en eftir athugun með myndbandsdómgæslu kom í ljós að boltinn kom við hönd Aymeric Laporte áður en markið var skorað og því ekki löglegt. Mikil ringulreið tók við er leikmenn og þjálfarar beggja liða reyndu að ná áttum en að lokum skildu liðin jöfn.



Raheem Sterling fagnar marki sínu í dag.
Raheem Sterling fagnar marki sínu í dag. AFP
Man. City 2:2 Tottenham opna loka
90. mín. Christian Eriksen (Tottenham) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert