Mögulega lykilleikur í titilbaráttunni

Raheem Sterling skorar fimmta mark Manchester City gegn West Ham …
Raheem Sterling skorar fimmta mark Manchester City gegn West Ham í 1. umferðinni. AFP

Manchester City og Tottenham eru tvö af þremur liðum sem talin eru líklegust til að berjast um enska meistaratitilinn í fótbolta í vetur og þau mætast í Manchester síðdegis í dag, í sannkölluðum stórleik 2. umferðar.

Fjörið og dramatíkin var með hreinum ólíkindum þegar liðin mættust á Etihad-vellinum í vor í seinni leiknum í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, þegar Tottenham sló City út, en City vann svo 1:0-sigur í leik liðanna í deildinni þremur dögum síðar.

„Við fengum að kynnast því á síðustu leiktíð við ýmis tilefni hve góðir þeir [Tottenham-menn] eru. Þeir eru með næstbesta lið Evrópu,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, og vísaði til þess að Tottenham komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Frá því að ég kom til Englands hafa þeir getað barist um titilinn á hverri einustu leiktíð. Fyrsta tímabilið enduðu þeir í 2. sæti og þeir hafa alltaf verið þar eða þar nálægt,“ sagði Guardiola.

Tottenham er enn án Deles Allis og Ryans Sessegnons vegna meiðsla, og þeir Son Heung-min og Juan Foyth eru í banni. City er án Benjamins Mendys og Leroys Sanés en Fernandinho gæti spilað sinn fyrsta leik á tímabilinu.

Umferðin hefst á leik Arsenal og Burnley í hádeginu þar sem Jóhann Berg Guðmundsson verður í eldlínunni. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton mæta Watford kl. 14 og þá mætast einnig meðal annars Southampton og Liverpool. Á morgun mætast Sheffield United og Crystal Palace og Chelsea og Leicester en umferðinni lýkur á mánudag með leik Wolves og Manchester United.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert