Cole leggur skóna á hilluna

Ashley Cole í leik með Chelsea.
Ashley Cole í leik með Chelsea. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Ashley Cole tilkynnti í dag að hann hafi lagt skóna á hilluna, 38 ára að aldri. Cole lék síðast með Derby í ensku B-deildinni. 

Cole er uppalinn hjá Arsenal og spilaði hann 156 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinn og skoraði átta mörk. Hann varð Englandsmeistari 2002 og 2004 með Arsenal og vann enska bikarinn þrisvar. 

Árið 2006 gekk hann í raðir Chelsea þar sem hann lék í átta ár og varð enskur meistari árið 2010 og bikarmeistari fjórum sinnum.

Cole lék einnig með Roma og LA Galaxy, áður en leiðin lá til Derby þar sem hann spilaði níu leiki á síðustu leiktíð. Cole lék 107 landsleiki fyrir England, en tókst ekki að skora landsliðsmark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert