Dramatík í kringum Eriksen?

Það er talið ólíklegt Christian Eriksen muni klára tímabilið með …
Það er talið ólíklegt Christian Eriksen muni klára tímabilið með Tottenham. AFP

Enskir fjölmiðlar fjalla um það í dag að Christian Eriksen, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, muni yfirgefa félagið áður en félagaskiptaglugganum verður lokað 2. september. Eriksen er orðinn 27 ára gamall en hann verður samningslaus næsta sumar og getur þá farið frítt frá félaginu.

Tottenham hefur gert allt til þess að fá leikmanninn til þess að skrifa undir nýjan samning en án árangurs. Enska félagið hefur boðið honum ríflega launahækkun sem hljóðar upp á 200.000 pund á viku en Eriksen, sem hefur leikið með Tottenham frá árinu 2013, er tilbúinn í nýja áskorun á sínum ferli. 

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Real Madrid ætli sér nú að bíða fram á lokadaga félagaskiptagluggans með að leggja fram tilboð í leikmanninn. Tottenham vildi fá í kringum 80 milljónir punda fyrir Eriksen í upphafi sumars en Real Madrid er sagt ætla að bjóða í kringum 50 milljónir punda í Danann.

Það er ákveðin pressa á Tottenham að selja Eriksen, ef þeir vilja fá eitthvað fyrir hann, en miðjumaðurinn hefur verið algjör lykilmaður í liðinu undanfarin ár. Hann hefur einnig verið orðaður við Barcelona, Juventus og Manchester United í sumar en flestir miðlar reikna með því að Daninn endi hjá Real Madrid.

mbl.is