Pogba og Rashford ráða hvor tekur vítin

Ole Gunnar Solskjær gengur af velli í kvöld.
Ole Gunnar Solskjær gengur af velli í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var svekktur eftir 1:1-jafntefli við Wolves í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Anthony Martial kom United yfir í fyrri hálfleik en Ruben Neves jafnaði með fallegu marki í seinni hálfleik. 

„Við vorum mikið meira með boltann og við skoruðum fyrsta markið. Við vissum að þeir myndu koma brjálaðir inn í seinni hálfleik. Þeir skoruðu mark sem þeir áttu skilið, en við náðum stjórn á leiknum eftir það og hefðum getað unnið," sagði Solskjær sem var ánægður með frammistöðuna í seinni hálfleik. 

„Þetta var þroskuð frammistaða í fyrri hálfleik. Við vorum ekki eins góðir í seinni hálfleik, en við erum að bæta okkur. Við erum með ungt lið sem mun læra. Við lærðum á vellinum í dag. 

Paul Pogba klikkaði á víti rúmum 20 mínútum fyrir leikslok. Marcus Rashford skoraði úr víti gegn Chelsea í síðustu umferð, en Pogba bað um að taka spyrnuna í kvöld. 

„Við fengum víti sem venjulega hefði tryggt okkur tvö stig í viðbót en markmaðurinn varði vel. Pogba og Rashford eru báðir vítaskytturnar okkar. Þeir ræða það sín á milli hvor tekur hverja spyrnu fyrir sig," sagði Solskjær.  

mbl.is