Ribéry gæti orðið liðsfélagi Gylfa

Franck Ribery er án félags eftir að samningur hans við ...
Franck Ribery er án félags eftir að samningur hans við Bayern München rann út. AFP

Franski sóknarmaðurinn Franck Ribéry gæti verið á leið til enska knattspyrnufélagsins Everton en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Ribéry er samningslaus en hann yfirgaf Bayern München á frjálsri sölu í lok júní þegar samningur hans við Þýskalandsmeistarana rann út.

Ribéry gekk til liðs við Bayern München árið 2007 þegar þýska félagið keypti hann af Marseille. Hann á að baki 425 leiki fyrir þýska stórliðið en hann hefur verið án félags undanfarnar vikur. Frakkinn er með tilboð frá bæði liðum í Bandaríkjunum og í Asíu en samkvæmt fréttum á Englandi er hann opinn fyrir því að ganga til liðs við Everton.

Gylfi Þór Sigurðsson er leikmaður Everton en liðið hefur farið vel af stað í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og situr í sjöunda sæti deildarinnar með 4 stig eftir fyrstu tvo leiki sína.

mbl.is