Rekið úr deildabikarnum og félagið í hættu

Bury er í vondum málum.
Bury er í vondum málum. Ljósmynd/Bury

C-deildarliðið Bury hefur verið dæmt úr enska deildabikarnum í fótbolta vegna fjárhagserfiðleika. Félagið gæti verið dæmt úr deildakeppninni síðar í vikunni. 

Fyrstu fimm deildarleikjum liðsins hefur verið frestað vegna stöðu félagsins og hefur Steve Dale, eigandi Bury, fram á föstudag til að annaðhvort selja félagið eða sanna að hann hafi nægt fjármagn til að halda því gangandi, ef ekki gæti liðið verið dæmt úr deildarkeppninni. 

Bury átti að mæta Sheffield Wednesday úr B-deildinni í 1. umferð deildabikarsins, en Sheffield-liðinu hefur verið dæmdur sigur. Bury skuldar tvær milljónir punda og hafa forráðamenn þess ekki fundið leið til að greiða upphæðina. 

Bury hefur verið í ensku deildakeppninni í 125 ár. Fái liðið leyfi til að taka þátt í C-deildinni, byrjar það með -12 stig vegna ástandsins. Steve Dale keypti Bury á eitt pund í desember frá Stewart Day. 

Dale hefur hins vegar ekki getað sannað fyrir forráðamönnum ensku deildakeppninnar að hann hafi fjármagn til að halda félaginu gangandi. Á meðan svo er fær liðið ekki að spila leiki. 

Fari svo að Bury verði rekið úr deildakeppninni verða 23 lið í C-deildinni í stað 24. Þrjú lið falla þá úr deildinni í stað fjögurra á meðan fjögur lið koma upp úr D-deildinni. Bury getur sótt um leyfi til að taka þátt í deildarkeppninni eftir tímabilið, en myndi þá byrja í utandeildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert