Guardiola hafði ekki trú á Silva

David Silva og Pep Guardiola fagna með City.
David Silva og Pep Guardiola fagna með City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur viðurkennt að hann hafi ekki trúað því að spænski miðjumaðurinn David Silva myndi stimpla sig jafn hressilega inn í enska boltann eins og raunin varð.

Hinn 33 ára gamli Silva gæti spilað sinn 400. leik fyrir City þegar liðið mætir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni um helgina, en hann kom frá Valencia árið 2010. Guardiola var þá stjóri Barcelona og þekkti því til Silva, en hann taldi miðjumanninn vera of lágvaxinn og veikburða til þess að höndla enska boltann.

„Sem betur fer hafði ég rangt fyrir mér. Hann er lágvaxinn og miðað við það sem ég vissi af enska boltanum áður en ég kom, þá hélt ég að hann myndi eiga erfitt uppdráttar,“ sagði Guardiola, sem telur Silva vera einn greindasta leikmann sem hann hafi unnið með. Það hafi því ekki komið á óvart að Silva fékk fyrirliðabandið hjá City í sumar eftir að Vincent Kompany hvarf á braut.

„Þú getur spilað vel eitt tímabil, en hann hefur gert það hér í tíu ár. Hann er mikill keppnismaður og veit líka hvernig á að takast á við mótlæti. Þessir eiginleikar hans hafa hjálpað honum að slá í gegn í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert