Rashford varð fyrir kynþáttaníði

Marcus Rashford svekktur eftir vítið sem fór forgörðum.
Marcus Rashford svekktur eftir vítið sem fór forgörðum. AFP

Marcus Rashford, framherji Manchester United, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlinum Twitter eftir að hann brenndi af vítaspyrnu í 1:2-tapi liðsins fyrir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. 

Rashford kom Paul Pogba til varnar eftir að Frakkinn varð fyrir kynþáttaníði í kjölfar þess að hann brenndi af vítaspyrnu í 1:1-jafntefli Manchester United og Wolves.

„Twitter, þetta verður að hætta. Manchester United er fjölskylda. Paul Pogba er stór partur af fjölskyldunni. Ef þið ráðist á hann, eruð þið að ráðast á okkur alla," skrifaði Rashford á samfélagsmiðilinn eftir atvikið. 

Nú hefur Englendingurinn ungi hinsvegar sjálfur orðið fyrir kynþáttaníði. Nokkrir notendur á Twitter kölluðu Rashford negra í færslum í dag. Tammy Abraham hjá Chelsea og Yakou Meité, leikmaður Reading, hafa einnig orðið fyrir kynþáttaníði á síðustu dögum, í kjölfar þess að þeir brenndu af vítaspyrnum. 

Twitter hefur fjarlægt færslurnar og munu forráðamenn samfélagsmiðilsins funda með starfsmönnum Manchester United vegna atvikanna. 

Phil Neville, þjálfari kvennalandsliðs Englendinga, hefur hvatt knattspyrnuhreyfinguna um að sniðganga samfélagsmiðla vegna kynþáttaníðs sem hefur færst í aukana. 

mbl.is