Arsenal kreisti fram jafntefli í grannaslagnum

Son Heung-Min og Alexandre Lacazette berjast í loftinu á Emirates …
Son Heung-Min og Alexandre Lacazette berjast í loftinu á Emirates í dag. AFP

Arsenal og Tottenham urðu að sættast á jafntefli, 2:2, í stórfjörugum grannslag á Emirates-leikvanginum í Lundúnum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Arsenal lenti 2:0 undir en tókst að kreista fram jafntefli á endasprettinum.

Fyrstu tíu mínúturnar voru eign heimamanna sem pressuðu stíft og ákaft en ísinn var engu að síður brotinn af gestunum á 11. mínútu þegar Christian Eriksen skoraði eftir glæsilega skyndisókn. Harry Kane vann þá skallaeinvígi á miðjum vellinum áður en Son Heung-Min sendi Erik Lamela í gegn. Skot Argentínumannsins var varið af Bernd Leno í marki Arsenal en Eriksen skoraði í autt netið úr frákastinu.

Gestirnir færðu sig upp á skaftið eftir markið og tókst verðskuldað að tvöfalda forystuna á 40. mínútu. Granit Xhaka tók þá afleitu ákvörðun á tækla Heung-Min innan vítateigs án þess að vera nálægt því að sparka í boltann og var vítaspyrna dæmd. Harry Kane steig á punktinn og skoraði af öryggi en leikmönnum Arsenal tókst að bíta frá sér fyrir hálfleik.

Nicolas Pépé setti þá boltann á Alexandre Lacazetta sem tók tvær frábærar snertingar innan teigs til að leggja boltann fyrir sig, áður en hann skoraði með föstu skoti úr þröngu færi. Heimamenn mættu svo tvíefldir til leiks eftir hlé og uppskáru að lokum jöfnunarmark á 71. mínútu þegar Pierre-Emerick Aubameyang stýrði boltanum í netið eftir glæsilega stungusendingu Mattéos Guendouzis. Bæði lið reyndu eftir þetta að kreista fram sigurmark. Harry Kane skaut í stöng fyrir Tottenham og heimamönnum tókst að koma boltanum í netið en Sead Kolasinac reyndist rangstæður.

Arsenal er því í 5. sæti með sjö stig eftir fjórar umferðir en Tottenham er með fimm stig í 9. sæti.

Arsenal 2:2 Tottenham opna loka
90. mín. Möguleiki úr skyndisókn hjá Tottenham en Sissoko nær ekki að koma boltanum á Kane og Leno grípur inn í. Fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is