Eiður: Mané og Salah þurfa ekki að vera vinir (myndskeið)

Sadio Mané, leikmaður Liverpool, var allt annað en sáttur við liðsfélaga sinn Mo Salah í 3:0-sigri liðsins á Burnley á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardag. Mané skoraði eitt mark í leiknum, en hann vildi greinilega skora fleiri. 

Mané var í góðu færi innan teigs fimm mínútum fyrir leikslok þegar Salah ákvað að taka skotið frekar en að gefa á Mané. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tók Mané út af nokkrum sekúndum síðar og var leikmaðurinn allt annað en sáttur þegar hann settist á bekkinn. 

Eiður Smári Guðjohnsen, Bjarni Þór Viðarsson og Tómas Þór Þórðarson ræddu atvikið í þættinum Vellinum á Símanum sport. 

„Þegar þú ert í svona færi viltu að liðsfélagi þinn spili á þig. Hugsunarhátturinn hjá Salah er að Mané er búinn að skora og nú þarf hann að skora,“ sagði Eiður og bar Mané og Salah svo saman við Chris Sutton og Alan Shearer sem unnu ensku deildina saman með Blackburn, en þoldu ekki hvor annan. „Þetta er bara jákvætt,“ bætti Arnar við. 

Eiður ræddi svo tímann sinn hjá Chelsea og Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. Þessa skemmtilegu umræðu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Sadio Mané
Sadio Mané AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert