Mourinho vildi ekki Van Dijk til United

Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. AFP

Manchester United ákvað að fara ekki í baráttu við Liverpool um fá miðvörðinn Virgil van Dijk til liðs við sig frá Southampton þar sem José Mourinho, þáverandi stjóri United, vildi hann ekki.

Breska blaðið Independent greinir frá þessu. Forráðamenn Manchester United voru tilbúnir að bjóða í Hollendinginn en gerðu það ekki að kröfu Mourinhos sem vildi ekki fá annan miðvörð í leikmannahópinn á þeim tímapunkti.

Liverpool greiddi 75 milljónir punda fyrir Van Dijk í desember 2017 og gerði hann að dýrasta varnarmanni heims á þeim tíma.

Óhætt er að segja að Liverpool hafi fengið eitthvað fyrir aurana því Van Dijk hefur verið frábær í hjarta varnarinnar hjá liðinu og var í sumar valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu þar sem hann skaut sjálfum Lionel Messi og Cristiano Ronaldo ref fyrir rass en þessir sömu þrír leikmenn eru tilnefndir í kjöri knattspyrnumanns ársins hjá FIFA.

Van Dijk er ekki lengur dýrasti varnarmaður heims því United greiddi Leicester í sumar 80 milljónir punda fyrir miðvörðinn Harry Maguire.

mbl.is