Vill fara í janúar fái hann ekki tækifæri hjá Solskjær

Marcos Rojo hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Manchester …
Marcos Rojo hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Manchester United undanfarin ár. AFP

Argentínski varnarmaðurinn Marcos Rojo vonast til að geta yfirgefið Manchester United í janúarglugganum fái hann ekki tækifæri hjá Ole Gunnar Solskjær.

Rojo hefur lítið komið sögu undir stjórn Solskjærs og með komu Harrys Maguires til félagsins frá Leicester í sumar er hætt við að það verði á brattann að sækja fyrir Argentínumanninn.

Everton sóttist eftir því að fá Rojo til liðs við sig í sumar en ekkert varð af þeim vistaskiptum

„Ég átti möguleika á að fara til Everton en félagið eða stjórinn vildu ekki leyfa mér að fara. Núna þarf ég að berjast fyrir sæti mínu fram í desember og ef það gengur ekki upp mun ég reyna að fara frá félaginu,“ segir Rojo í viðtali við argentínska netmiðilinn Ole.

mbl.is