Óvissa með samningamál Van Dijk

Virgil van Dijk er einn besti varnarmaður heims.
Virgil van Dijk er einn besti varnarmaður heims. AFP

Enska dagblaðið Mirror greindi frá því í gær að hollenski knattspyrnumaðurinn Virgil van Dijk hafði framlengt samning sinn við Liverpool til ársins 2025. Samkvæmt frétt miðilsins hækkuðu laun van Dijk töluvert með nýja samningnum. 

Núverandi samningur van Dijk við Liverpool gildir til 2023 og er hann með um 125 þúsund pund í vikulaun. Mirror greindi frá því að laun Hollendingsins hækkuðu upp í 200 þúsund pund á viku. 

Liverpool Echo, staðarmiðillinn í Liverpool, segir ekkert til í fréttum Mirror hins vegar. Miðillinn segir að ekki standi til að bjóða van Dijk nýjan samning á næstunni, en núgildandi samningur er með möguleika á framlengingu til 2024. 

Van Dijk hefur ekki beðið félagið um launahækkun eða framlengingu á samningi sínum, samkvæmt Liverpool Echo. Hann hefur verið einn allra besti varnarmaður heims síðan hann gekk í raðir Liverpool frá Southampton í janúar á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert