Alisson byrjaður að æfa en tekur ekki stöðu sína í bráð

Alisson markvörður Liverpool.
Alisson markvörður Liverpool. AFP

Alisson Becker, markvörður Evrópumeistara Liverpool, er byrjaður að æfa á nýjan leik en hann hefur verið frá vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leiknum gegn nýliðum Norwich í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool ætlar ekki að taka neina áhættu með Brasilíumanninn og hann mun ekki taka stöðu sína á milli stanganna í bráð en hann varð fyrir meiðslum í kálfa. Á meðan mun Spánverjinn Adrían verja mark liðsins eins og hann hefur gert í síðustu leikjum.

Liverpool, sem trónir á toppnum með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir í deildinni, tekur á móti Newcastle í hádeginu á laugardaginn og á þriðjudaginn hefur liðið titilvörnina í Meistaradeildinni þegar það sækir Napoli heim.

mbl.is