De Bruyne vill feta í fótspor Kompany

Kevin De Bruyne og Vincent Kompany eru góðir félagar.
Kevin De Bruyne og Vincent Kompany eru góðir félagar. AFP

Belgíski knattspyrnumaðurinn Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, ætlar sér að ganga í raðir Anderlecht í heimalandinu þegar hann yfirgefur Manchester City á Englandi. Hann myndi þá feta í fótspor Vincent Kompany sem skrifaði undir þriggja ára samning við Anderlecht eftir 11 ár hjá City.

De Bruyne og Kompany unnu ensku deildina tvisvar, enska bikarinn einu sinni og enska deildabikarinn þrisvar á þeim fjórum árum sem þeir spiluðu saman undir stjórn Manuel Pellegrini og Pep Guardiola hjá City. 

„Ég vona að ferillinn hjá Kompany verði eins góður hjá Anderlecht og hann var hjá City. Ég sagði honum að geyma sæti fyrir mig í liðinu eftir eitt ár, eða sjö, þegar ég yfirgef City. Ef hann gerir það fyrir mig er ljóst hvað ég geri næst. Ég sakna hans nú þegar,“ sagði De Bruyne við The Sun.

Hann segir Kompany hafa átt stóran þátt í þeirri ákvörðun að hann kom til Manchester City frá Wolfsburg. „Vinny ýtti á mig og vildi fá mig til Manchester. Hann spurði mig endalaust og sagði að ég þyrfti að koma til City, sem ég endaði á að gera,“ sagði Belginn.

mbl.is