Enska liðið gæti gengið af velli

Raheem Sterling varð fyrir kynþáttaníði á laugardag.
Raheem Sterling varð fyrir kynþáttaníði á laugardag. AFP

Leikmenn enska karlalandsliðsins í fótbolta gætu gengið af velli, verði þeir fyrri barðinu á kynþáttaníði gegn Búlgaríu á útivelli í undankeppni EM 2020 í næsta mánuði. 

Búlgaría fékk refsingu fyrir kynþáttaníð eftir leiki landsliðs þjóðarinnar við Kósóvó og Tékkland í júní. FIFA skipaði búlgarska knattspyrnusambandinu að loka einni stúku í leiknum við England. 

Leikmenn enska liðsins ræddu mögulegt kynþáttaníð á HM í Rússlandi og komust leikmenn að þeirri niðurstöðu að ganga ekki af velli, heldur leggja inn formlega kvörtun eftir leik, ef þeir yrðu fyrir kynþáttaníði. 

Síðan þá hefur kynþáttatníð orðið æ algengara í knattspyrnu og gætu leikmenn enska liðsins gengið af velli í Búlgaríu til að senda skilaboð.

Búlgörskum stuðningsmanni var vikið af Wembley-leikvanginum í London síðasta laugardag er England og Búlgaría mættust fyrir kynþáttaníð í garð Raheems Sterlings. 

Danny Rose, Sterling og Callum Hudson-Odoi urðu allir fyrir kynþáttaníði í mars er England mætti Svartfjallalandi. Paul Pogba, Marcus Rashford, Romelu Lukaku og Kurt Zouma hafa svo allir orðið fyrir kynþáttaníði í byrjun leiktíðarinnar í ensku úrvalsdeildinni. 

mbl.is