Fern augljós mistök hjá VAR

Ákvörðun var sýnd á skjá á Emirates-vellinum í leik Arsenal …
Ákvörðun var sýnd á skjá á Emirates-vellinum í leik Arsenal og Tottenham. AFP

VAR, myndbandsdómgæsla, hefur gert fern augljós mistök hingað til í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á tímabilinu. Þetta viðurkennir Mike Riley, yfirmaður dómaramála hjá deildinni.

Fabian Schär skoraði mark fyrir Newcastle gegn Watford sem ekki átti að standa. Youri Tielemans, leikmaður Leicester, átti að fá rautt fyrir að traðka á Callum Wilson, leikmanni Bournemouth.

Manchester City átti að fá víti gegn Bouremouth er Jefferson Lerma traðkaði á David Silva og Sabastien Haller átti að fá víti fyrir West Ham gegn Norwich er Tom Trybull braut á honum.

„Við erum enn að læra á VAR og við erum að bæta okkur stanslaust. Við höfum notað VAR mjög vel og í sex tilvikum hefur það hjálpað okkur að taka rétta ákvörðun. Það hafa hins vegar verið fjögur atvik þar sem VAR hefur ekki hjálpað okkur að taka rétta ákvörðun.

Við reynum að láta leikinn fljóta og takmarka notkun VAR en í þessum tilvikum hefðum við átt að gera það. Þetta voru augljós mistök. Dómararnir inni á vellinum hafa heilt yfir staðið sig vel hingað til og vonandi verður þetta bara betra,“ sagði Riley í samtali við Sky Sports. 

mbl.is