Getur jafnast á við Ronaldo og Messi

Raheem Sterling
Raheem Sterling AFP

Raheem Sterling getur einn daginn jafnast á við þá Cristiano Ronaldo og Lionel Messi ef hann heldur áfram að bæta sig en þetta segir knattspyrnustjóri hans hjá Manchester City, Pep Guardiola.

Sterling skoraði í báðum landsleikjum Englands í vikunni, gegn Búlgaríu og Kósóvó, í undankeppni EM og þá er hann búinn að skora átta mörk í átta leikjum fyrir bæði landsliðið og Englandsmeistara City það sem af er tímabili. Guardiola vill þó sjá kappann gera enn betur í framtíðinni.

„Það stenst enginn samanburð við þá,“ sagði Guardiola um Ronaldo og Messi sem hafa sín á milli tíu sinnum verið valdir bestu knattspyrnumenn heims síðastliðin 11 ár. Báðir hafa þeir skorað yfir 600 mörk á ferlinum og unnið nær alla titla sem þeim hafa staðið til boða.

„Þeir eru algjörar goðsagnir en ef Sterling getur náð þeirra stigi, vá!“ bætti Spánverjinn við á blaðamannafundi sínum. „Ég er ánægður með hann og allt sem hann hefur gert fyrir okkur en vonandi les hann ekki blöðin á morgun. Hann má ekki hlusta á svona lagað, það kemst enginn nálægt Ronaldo og Messi akkúrat núna. Það væri draumur fyrir hann að gera það einn daginn, fyrir okkur öll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert