Hefur aldrei mætt liði eins og Liverpool

Jürgen Klopp fékk mikið hrós frá miðjumanni Arsenal í vikunni.
Jürgen Klopp fékk mikið hrós frá miðjumanni Arsenal í vikunni. AFP

Dani Ceballos, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, hefur aldrei mætt liði eins og Liverpool á ferli sínum sem leikmaður en hann er á láni hjá Arsenal frá spænska stórliðinu Real Madrid.

Ceballos var í byrjunarliði Arsenal sem tapaði 3:1-fyrir Liverpool á Anfield í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í lok ágúst en Spánverjinn sparaði ekki stóru orðin á dögunum. „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt á mínum ferli,“ sagði miðjumaðurinn í samtali við Guardian.

„Ég hef aldrei mætt liði sem spilar jafn vel, pressar eins og þeir, og er með stuðningsmennina svona svakalega á bak við sig. Þú færð varla pláss til þess að anda. Þú eyðir miklum tíma í að verjast og loksins þegar þú nærð í boltann og ætlar að anda aðeins þá eru þeir mættir að pressa á þig af fullum krafti.

Ég hef aldrei á ævinni mætt jafn vel þjálfuðu liði eins og Liverpool. Við viljum auðvitað gera svipaða hluti og Liverpool en við eigum ennþá mjög langt í land. Jürgen Klopp hefur verið hjá félaginu frá 2015 á meðan Unai Emery tók við Arsenal fyrir síðasta tímabil,“ sagði Ceballos ennfremur.

mbl.is