Solskjær óttast að heltast úr lestinni

Ole Gunnar Solskjær vill ekki sjá sína menn dragast aftur …
Ole Gunnar Solskjær vill ekki sjá sína menn dragast aftur úr í baráttunni. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, óttast að sínir menn heltist úr lestinni í baráttunni um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni í vetur en liðið hefur farið hægt af stað á tímabilinu og verður án lykilmanna þegar Leicester kemur í heimsókn á Old Trafford á morgun.

„Leicester er með gott lið undir stjórn Brendans Rodgers. Liðið spilar góðan fótbolta og við þurfum toppleik til að verðskulda þrjú stig. Það eru stórir leikir fram undan og við megum ekki við því að missa Tottenham, Chelsea og Arsenal of langt frá okkur,“ sagði Norðmaðurinn á blaðamannafundi í morgun fyrir leikinn.

Aðspurður hvort Leicester væri með jafnsterkt lið og United í vetur sagði Solskjær einfaldlega: „Ég vil ekki tala of mikið um Leicester. Þeir eru með gott lið en Manchester United er stærsta og besta félag heims.“

United hefur aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum til þessa en mætir á morgun ósigruðu liði Leicester sem situr í þriðja sæti deildarinnar með tvo sigra og tvö jafntefli. Ljóst er að lykilleikmenn á borð við Paul Pogba og Anthony Martial verða ekki með á morgun vegna meiðsla og þá eru þeir Luke Shaw og Diogo Dalot einnig frá. Aaron Wan-Bissaka og Jesse Lingard eru ekki heillir heilsu og of snemmt að svara því hvort þeir verði leikfærir.

mbl.is