Nýliðarnir skelltu meisturunum

Todd Cantwell skorar í autt mark og tvöfaldar forystu Norwich …
Todd Cantwell skorar í autt mark og tvöfaldar forystu Norwich á Carrow Road í dag. AFP

Nýliðar Norwich gerðu sér lítið fyrir og unnu 3:2-heimasigur á Englandsmeisturum Manchester City í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Heimamenn komust yfir á 18. mínútu þegar Kenny McLean stangaði knöttinn í netið úr hornspyrnu og stuðningsmenn Norwich trúðu vart eigin augum þegar Todd Cantwell kom liðinu í tveggja marka forystu tíu mínútum síðar. Cantwell rúllaði knettinum í autt netið eftir laglega skyndisókn og góða stoðsendingu frá Temu Pukki.

Meistararnir voru þó ekki alveg ráðalausir og þeir minnkuðu muninn rétt fyrir hálfleik, Sergio Agüero skallaði boltann í netið eftir laglega fyrirgjöf frá Bernardo Silva, staðan 2:1 í hálfleik. Einhverjir héldu þá að stjörnulið City myndi færa sig upp á skaftið og keyra yfir nýliðana eftir hlé en það voru akkúrat leikmenn Norwich sem komu inn í síðari hálfleikinn af krafti.

Temu Pukki skoraði sjötta deildarmarkið sitt á 50. mínútu eftir að Nicolas Otamendi tapaði boltanum klaufalega í vörninni. Emi Buendía rændi boltanum og renndi honum á Pukki sem skoraði. City pressaði stíft það sem eftir lifði leiks en leikmenn liðsins reyndust óvenjubitlausir fyrir framan mark andstæðingsins.

Spánverjinn Rodri minnkaði þó muninn undir lok leiks með laglegu skoti utan teigs en nær komust leikmenn City ekki og töpuðu þar með fyrsta leik sínum á tímabilinu. Norwich er í 12. sæti með sex stig en City er í öðru sæti með tíu stig, fimm stigum á eftir toppliði Liverpool eftir fimm umferðir.

Leikmenn Norwich fagna á Carrow Road í dag.
Leikmenn Norwich fagna á Carrow Road í dag. AFP
Norwich 3:2 Man. City opna loka
90. mín. Man. City fær hornspyrnu
mbl.is