Aston Villa úr fallsæti

Jack Grealish komst næst því að skora.
Jack Grealish komst næst því að skora. AFP

Nýliðar Aston Villa eru komnir upp úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir markalaust jafntefli gegn West Ham á Villa Park í Birmingham í lokaleik fimmtu umferðarinnar í kvöld. 

Villa er nú 17. sæti með fjögur stig, eins og Newcastle, en markatala Villa er betri og fór Newcastle því niður í fallsæti. 

West Ham var meira með boltann, en Aston Villa fékk betri færi. Jack Grealish fékk það besta, en hann náði ekki að skora af stuttu færi í seinni hálfleik. 

West Ham var manni færri síðustu rúmu 20 mínúturnar þar sem Arthur Masuaku fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 67. mínútu. Þrátt fyrir það tókst Villa ekki að skora. West Ham er í áttunda sæti með átta stig. 

mbl.is