Klopp gæti yfirgefið Liverpool vegna veðurs

Jürgen Klopp er ekki hrifinn af enska veðrinu.
Jürgen Klopp er ekki hrifinn af enska veðrinu. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gæti yfirgefið félagið þar sem hann er ekki hrifinn af veðrinu á Englandi. Þetta sagði Marc Kosicke, umboðsmaður Þjóðverjans í samtali við Goal. 

Samningur Klopp við Liverpool gildir til 2022, en forráðamenn enska félagsins vilja semja við Klopp fljótlega og lengja samninginn. Klopp hefur hins vegar áður sagst ætla að taka sér frí frá fótbolta er samningurinn rennur út og Kosicke segir Klopp horfa til hlýrri landa. 

„Félagið vill semja við hann en okkur liggur ekki á. Við sjáum hvort það hlýni á Englandi á næstu árum. Það má ekki gera lítið úr hversu mikilvægt veðrið er. Það er dimmt úti þegar Klopp og eiginkonan hans vakna og dimmt þegar þau hittast aftur um kvöldið," sagði Kosicke. 

„Félögin í Þýskalandi fara í ferðalag til hlýrri landa í desember eða janúar á meðan stjórar í ensku deildinni eru á fullu að undirbúa liðin sín fyrir stóra törn. Stjórarnir verða búnir á því," bætti hann við. 

mbl.is