Eiður Smári hefur áhyggjur af United (myndskeið)

Tóm­as Þór Þórðar­son, Eiður Smári Guðjohnsen og Bjarni Þór Viðars­son ræddu um Marcus Rashford, framherja Manchester United, í Vellinum á Síminn Sport. 

Sögðu þeir að Rashford væri í erfiðri stöðu hjá Manchester United, þar sem hann fengi oft ekki úr miklu að moða. 

„Spilið í kringum hann er ekki frábært. Þetta er ekki eins og hjá City og Liverpool þar sem boltinn er að ganga á milli leikmanna. Hann þarf að gera mikið upp á sitt eindæmi. Marcus Rahsford er góður framherji en þarf leikmenn í kringum sig sem eru að tengja betur við hann,“ sagði Bjarni. 

Eiður tók í sama streng og skaut á miðjumenn Manchester United og sagði þá ekki nægilega góða. 

„Oft á tíðum er hann í framlínunni. Hann var með McTominay og Matic fyrir aftan sig og svo Juan Mata. Eru þetta þeir miðjumenn sem eiga að geta unnið titil fyrir félagið? Ég sé það ekki gerast. Ef Mata er sá leikmaður sem á að vera mest skapandi í liðinu þínu, myndi ég hafa áhyggjur,“ sagði Eiður. 

Marcus Rashford fær oft ekki úr miklu að moða.
Marcus Rashford fær oft ekki úr miklu að moða. AFP
mbl.is