Guðjón fulltrúi Chelsea á alheimsvísu

Guðjón Sigurðsson á Stamford Bridge ásamt Hallfríði Reynisdóttur
Guðjón Sigurðsson á Stamford Bridge ásamt Hallfríði Reynisdóttur Ljósmynd/Chelsea klúbburinn

Í annað sinn hefur félagi í Chelsea-klúbbnum á Íslandi orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera valinn til setu hjá Fans' Forum hjá Chelsea.

Í fréttatilkynningu frá Chelsea-klúbbnum á Íslandi segir;

„Guðjón Sigurðsson tók sæti í ráðinu fyrir hönd „Disabled members“  og sat sem slíkur sinn fyrsta fund í Fans' Forum í síðustu viku og fór fundurinn fram, venju samkvæmt, á Stamford Bridge.

Eins og fyrr segir er þetta í annað sinn sem einn af okkar félagsmönnum tekur sæti í Fans' Forum, formaður Chelsea-klúbbsins, Karl H. Hillers, átti sæti í ráðinu fyrir hönd „Overseas Supporters' Branch“ (stuðningsmannaklúbbar Chelsea utan Bretlandseyja) á árunum 2014- 2016.

Fans' Forum er vettvangur hjá Chelsea Football Club þar sem ýmsir stjórnendur hjá félaginu annars vegar og fulltrúar hinna ýmsa aðildarklúbba og hagsmunaðila félagsins hins vegar hittast og bera saman bækur sínar, fara yfir hvað betur mætti fara í samskiptum þessara aðila, bæði innbyrðis og ekki síður við önnur knattspyrnufélög og samtök er koma að knattspyrnumálum, bæði innan lands sem utan.

Fundarmenn geta komið tillögum um hin ýmsu mál á framfæri beint við yfirstjórn félagsins á þessum vettvangi og þá um nánast allt sem Chelsea Football Club stendur fyrir, allt nema keppnislið félagsins.

Eins og fyrr segir situr Guðjón Sigurðsson í Fans' Forum fyrir hönd „Disbled Members“ og það á heimsvísu næstu tvö árin. Stjórn Chelsea-klúbbsins hefur samþykkt að styrkja Guðjón fjárhagslega vegna þessa en hver og einn hinna 15 fulltrúa verður að standa straum af kostnaði við setu í ráðinu sjálfir (þ.m.t. ferða- og gistikostnað) eða þau aðildarfélög/samtök sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Guðjón er vart þörf á að kynna, hann hefur í mörg ár verið í forsvari fyrir MND félagið á Íslandi sem og samtaka MND-sjúklinga á alheimsvísu. Og að sjálfsögðu er hann eitilharður fylgismaður Chelsea Football Club, blár inn að beini og félagi í Chelsea-klúbbnum til margra ára.

Stjórn Chelsea-klúbbsins óskar Guðjóni til hamingju með þann heiður og traust sem Chelsea Football Club hefur sýnt honum með skipan hans í Fans' Forum, megi honum farnast vel þar á fundum.“

mbl.is