Horfi á andstæðingana í flugvélinni

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, reiknar með erfiðum leik á móti Watford þótt það vermi botnsætið í ensku úrvalsdeildinni eftir fimm umferðir.

City tapaði óvænt fyrir nýliðum Norwich um síðustu helgi og má ekki við því að misstíga sig á heimavelli á morgun.

„Watford er búið að skipta um stjóra og ég óska Quique Sanchez Flores alls hins besta,“ sagði Guardiola við fréttamenn í dag en City gerði góða ferð til Úkraínu í vikunni og vann 3:0 sigur á móti Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni.

„Ég horfði á Watford á móti Arsenal í flugvélinni á leið í heim. Seinni hálfleikurinn hjá liðinu, vá,“ sagði Guardiola en Watford gerði 2:2 jafntefli á móti Arsenal um síðustu helgi eftir að hafa lent 2:0 undir.

Aðeins einn náttúrulegur miðvörður, Nicolas Otamendi, er leikfær hjá City þar sem John Stones og Aymeric Laporte eru báðir frá vegna meiðsla. Í leiknum á móti Shakhtar lék Fernandinho í miðvarðarstöðunni.

„Við höfum marga kosti. Við erum með unga leikmenn sem við treystum vel. Við lítum ekki á þetta sem vandamál, við tökum þetta sem áskorun,“ sagði Guardiola.

mbl.is