Meiðslin enn að angra United

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti á fréttamannafundi í morgun að Paul Pogba, Anthony Martial og Luke Shaw yrði ekki með liðinu þegar það mætir West Ham á ólympíuleikvanginum í London í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudaginn.

Þeir þremenningar hafa ekki jafnað sig af meiðslum en þeir hafa verið fjarri góðu gamni í síðustu tveimur leikjum United-liðsins, gegn Leicester í deildinni og á móti Astana í Evrópudeildinni en Manchester-liðið vann báða leikina 1:0.

Solskjær er vongóður um að kantmaðurinn Daniel James verði með í leiknum á sunnudaginn en hann gat ekki verið með í leiknum á móti Astana í gærkvöld vegna meiðsla. James hefur byrjað ferilinn með United virkilega vel og hefur skorað þrjú mörk í fimm leikjum liðsins í deildinni.

mbl.is