Meistararnir skoruðu átta í risasigri

Meistararnir röðuðu inn mörkum á Etihad í dag.
Meistararnir röðuðu inn mörkum á Etihad í dag. AFP

Englandsmeistarar Manchester City rótburstuðu Watford, 8:0, á Etihad-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu rétt í þessu. Everton fór illa að ráði sínu og tapaði 2:0 á heimavelli gegn nýliðum Sheffield United og þá vann Burnley 2:0-heimasigur á Norwich.

Einhver pressa var á meisturunum eftir óvænt tap gegn Norwich um síðustu helgi en lærisveinar Peps Guardiola voru aldrei líklegir til að tapa stigum í dag. David Silva setti tóninn þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins á fyrstu mínútunni eftir fyrirgjöf Kevins de Bruyne en gestirnir mættu hreinlega ekki til leiks. Sergio Agüero bætti við marki úr vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar og Riyad Mahrez, Bernardo Silva og Nicolás Otamendi skoruðu allir, staðan orðin 5:0 eftir aðeins 18 mínútur.

Bernardo Silva bætti svo við tveimur mörkum eftir hálfleik til að innsigla þrennu sína og Kevin de Bruyne skoraði undir lok leiks til að reka smiðshöggið á afgerandi stórsigur City. Vert er að minnast þess að liðin mættust í úrslitaleik enska bikarsins á síðustu leiktíð og vann þá City 6:0-sigur á Wembley.

Slæmt gengi Everton heldur áfram en nýliðar Sheffield United mættu á Goodison Park í dag og hirtu stigin þrjú. Yerry Mina skoraði sjálfsmark í fyrri hálfleik áður en Lys Mousset skoraði annað mark gestanna á 79. mínútu. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og spilaði allan leikinn. Þetta var fyrsti útisigur Sheffield United í úrvalsdeild í 13 ár og leikmenn Everton voru púaðir af velli af sínum eigin stuðningsmönnum.

Jóhann Berg Guðmundsson var hins vegar ekki með Burnley vegna meiðsla en fjarvera hans kom ekki að sök. Burnley vann 2:0-sigur á Norwich þar sem Chris Wood gerði bæði mörkin, á 10. og 14. mínútu. Burnley er því í 7. sæti með átta stig.

Englandsmeistararnir endurheimtu annað sætið og sitja þar með 13 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Liverpool sem mætir Chelsea á morgun. Everton er í 14. sætinu með sjö stig en liðið hefur tapaði þremur af fyrstu sex leikjum sínum.

Úrslitin
Burnley - Norwich 2:0
Everton - Sheffield United 0:2
Manchester City - Watford 8:0

Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 15:50 Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert