Pochettino strax farinn að svekkja sig (myndskeið)

Tottenham hefur ekki farið neitt sérstaklega vel af stað í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð. Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar með 8 stig en liðið tapaði 2:1 fyrir Leicester á útvelli um helgina. Þetta var annað tap liðsins í deildinni en Tottenham fór alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, var einn af sérfræðingum Vallarins sem var á dagskrá Símans Sport í gær og þar ræddi hún meðal annars Mauricio Pochettino, þjálfara liðsins. „Það virðist vera sem svo að hann sé strax dottinn í einhvern vonbrigðagír sem er skrítið þar sem það er ennþá mikið eftir af mótinu,“ sagði Margrét Lára.

„Hann hefur fengið mikið hrós á undanförnum árum og verið orðaður við stærri félög í gegnum tíðina. Ég veit ekki alveg hvað það er sem er að hrjá hann en hann þarf bara að halda áfram og passa sig að láta ekki einhverja utanaðkomandi umræðu hafa of mikil áhrif á sig,“ sagði Margrét Lára meðal annars.

Mauricio Pochettino og Harry Kane voru til umræðu í Vellinum …
Mauricio Pochettino og Harry Kane voru til umræðu í Vellinum í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert