Svaf vel þrátt fyrir stórsigur City

Jürgen Klopp stýrði sínum mönnum til sigurs gegn Chelsea á …
Jürgen Klopp stýrði sínum mönnum til sigurs gegn Chelsea á Stamford Bridge í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri  Liverpool, var ánægður eftir 2:1-sigur sinna manna gegn Chelsea á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni í gær. Liverpool er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eða 18 stig eftir fyrstu sex umferðirnar en ríkjandi Englandsmeistarar í Manchester City eru í öðru sætinu með 13 stig.

City vann stórsigur gegn Watford á Etihad-vellinum á Manchester á laugardaginn, 8:0, og setti þar með ágætis pressu og Klopp og lærisveina hans sem hafa oft spilað betur en á Stamford Bridge í gær. „Þú getur alltaf lent í því að tapa stórt þegar þú spilar gegn City,“ sagði Klopp í samtali við blaðamenn eftir leikinn í London í gær.

„Við töpuðum 5:0-þarna 2017 þegar Mané var rekinn af velli í fyrri hálfleik. Versta lið sem þú getur mætt, með tíu leikmenn á vellinum, er City en ég svaf samt sem áður vel í nótt. Það eru allir leikir erfiðir og eins og staðan er í dag erum við að berjast við besta lið í heimi. Ég er ekki að reyna setja pressu á Guardiola og félaga en þeir eru besta lið heims þegar að þeir eru upp á sitt besta.“

„Við erum ekki slæmir heldur, þannig er það nú bara, en þetta snýst bara um að safna stigum. Ég á ekki von á því að þetta verði barátta tveggja liða. Það eru sex umferðir búnar af tímabilinu og venjan er sú að tala ekki um meistara fyrr en eftir 38 umferðir. Það er of snemmt að segja til um það hvaða lið verður Englandsmeistari í ár og mótið er langt frá því að vera búið,“ sagði Klopp.

mbl.is