Fjörugt jafntefli á Old Trafford

Daniel James sækir á Callum Chambers í kvöld.
Daniel James sækir á Callum Chambers í kvöld. AFP

Manchester United og Arsenal skildu jöfn, 1:1, í lokaleik 7. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Old Trafford í kvöld í skemmtilegum og spennandi leik. 

Eftir rólegan fyrsta hálftíma lifnaði leikurinn við og Scott McTominay kom United yfir með fallegu skoti utan teigs upp í samskeytin.

Liðin skiptust á að sækja í seinni hálfleik og á 58. mínútu jafnaði Pierre-Emerick Aubameyang. Hinn 18 ára gamli Bukayo Saka sendi þá inn fyrir á Pierre-Emerick Aubameyang sem vippaði skemmtilega yfir David De Gea í marki United. 

Aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu á framherjann en eftir skoðun myndbandsdómara var markið að lokum dæmt gilt, enda Aubameyang langt frá því að vera fyrir innan. 

Eftir jöfnunarmarkið fengu bæði lið góð færi til að tryggja sér þrjú stig en mörkin urðu ekki fleiri. Arsenal er í fjórða sæti með tólf stig og Manchester United í tíunda sæti með níu stig. 

Man. Utd 1:1 Arsenal opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma. United á aukaspyrnu á stórhættulegum stað.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert