Solskjær við Tómas: Rétt ákvörðun hjá VAR (myndskeið)

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, ræddi við Tómas Þór Þórðarson hjá Símanum sport eftir 1:1-jafntefli sinna manna gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Scott McTominay kom United yfir í fyrri hálfleik en Pierre-Emerick Aubaumeyang jafnaði í seinni hálfleik. 

„Það var eitthvað jákvætt í þessu en við erum svekktir með að ná ekki í stigin þrjú. Hugarfarið og hungrið var akkúrat eins og það átti að vera,“ byrjaði Solskjær. 

„Við náðum hins vegar ekki að skora annað markið. Við höfum oft komist í 1:0 en við verðum að læra að bæta við mörkum, eins og við gerðum á móti Chelsea,“ sagði Solskjær, sem var ekki ánægður með byrjunina í seinni hálfleik. „Við urðum svolítið varkárir í dag og gáfum til baka og til hliðar fyrsta korterið í seinni hálfleik þangað til þeir skoruðu.“

Markið sem Arsenal skoraði var dæmt eftir að aðstoðardómarinn flaggaði rangstöðu en dómnum var breytt eftir að myndbandsdómarar skoðuðu atvikið. „Þetta var rétt ákvörðun hjá VAR. Þetta voru vond mistök hjá okkur, en svona er fótboltinn,“ sagði Solskjær. 

Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert