„Vona að United endi ekki eins og Liverpool“

Manchester United fagnar marki gegn Arsenal á mánudagskvöldið.
Manchester United fagnar marki gegn Arsenal á mánudagskvöldið. AFP

Dimitar Berbatov, fyrrverandi leikmaður Manchester United, óttast að sitt gamla félag sé að lenda í sömu stöðu og Liverpool lenti í, en eftir að Sir Alex Ferguson hætti sem knattspyrnustjóri Manchester United fyrir sex árum hefur það ekki verið nálægt því að berjast um Englandsmeistaratitilinn.

„Það er pirrandi og erfitt fyrir mig að viðurkenna að Manchester United er svo langt á eftir Manchester City og Liverpool. Ég vona að United endi ekki eins og Liverpool að bíða í minnst 29 ár eftir titlinum. Sex ár er lengur tími að að bíða eftir að vinna titilinn fyrir lið eins og Manchester United,“ segir Berbatov í viðtali við vefmiðilinn Betfair en Búlgarinn lék með United árin 2008-12 og varð í tvígang Englandsmeistari með liðinu.

„Þegar þú lendir í þannig spíral munt þú hægt og bítandi missa þitt DNA. Horfið á Liverpool og öll þessi ár sem það hefur ekki unnið titilinn. Þú vilt það ekki. Vissulega er Liverpool að spila betur núna en það hefur tekið langan tíma fyrir það að komast á þennan stað þar sem liðið spilar frábæran fótbolta. United þarf að finna sigurformúluna eins og fljótt og mögulegt er,“ segir Berbatov.

Manchester United er í 10. sæti deildarinnar með aðeins níu stig eftir sjö umferðir og 12 stigum á eftir toppliði Liverpool. Erkióvinirnir eigast við á Old Trafford 20. þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert